RANNSÓKNAR-SKÝRSLAN TILNEFND?
Ekki ætla ég að ræða innihald skýrslunnar enda eru prófarkalesarar stjórnmálaflokkanna að fara yfir lokaeintakið. Við þurfum því ekki að hafa neinar áhyggjur af efninu. Annað er að plaga mig - annars vegar þyngd skýrslunnar og hins vegar ýmsir umhverfisþættir tengdir útgáfunni.
Fyrst þyngdin. Símaskráin 2009 vegur um tvö kíló og er bókin 1620 blaðsíður. Boðað hefur verið að Rannsóknarskýrsla Alþingis verði talsvert lengri og líklega verður pappírinn einnig veigameiri en í símaskránni. Gefur því augaleið að ekki verður hægt að lesa hana, fremur en símaskrána, uppi í rúmi til að detta fljótt og örugglega út af.
Þá að umhverfisþáttunum en þar er Símaskráin 2009 í alla staði til fyrirmyndar. Pappírinn er sóttur í sjálfbært skóglendi. Blek, lím og pappír sem notað er í bókina er að öllu leyti niðurbrjótanlegt og algjörlega skaðlaust náttúrunni. Vonandi hefur verið horft til þessara þátta varðandi rannsóknarskýrsluna.
Þá verður ekki eingöngu hægt að tilnefna rannsóknarskýrsluna til íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðirita, Glerlykilsins fyrir bestu norrænu glæpasöguna heldur einnig til norrænu umhverfisverðlaunanna í flokki prentgripa.
Þjóðólfur