Réttlæti, hefnd og hefð
Sæll Ögmundur. Þú spyrð skiljanlega um refsinguna og þjáningu fórnarlambsins. Ég er þeirrar skoðunar að aldrei sé hægt að ákvarða refsingu sem fall af þjáningu þolandans af því þjáningin er ekki algild heldur einstaklingsbundin. Ég er sömuleiðis þeirrar skoðunar að ekki sé hægt að setja algildar reglur um það hvernig samfélagið á að koma til móts við fórnarlömbin félags-og fjárhagslega eins og þú nefnir. Það á hins vegar að vera fortakslaus almenn skylda samfélagsins að kosta því til sem þarf svo fórnarlambið nái bestu mögulegu heilsu eftir árásina sem það varð fyrir. Skaðann sem mögulegt er að mæla efnislega þarf brotamaðurinn sömuleiðis að bæta og samfélagið að tryggja. Í grunninn er hugmyndin þá að brotamaðurinn er látinn bera ábyrgð á gjörð sinni og gerður, ásamt samfélaginu, ábyrgur fyrir að fórnarlambið standi í sömu sporum fyrir og eftir brotið sem það mátti þola, að svo miklu leyti sem slíkt er yfirleitt hægt. Aftur að Árnamálinu. Lagaprófessor, aðstoðarritstjóri og fleiri álitsgjafar hafa verið að segja okkur frá því að hæstaréttardómararnir hafi með dómnum yfir Árna Johnsen verið að senda skilaboð út í samfélagið um að harðar yrði tekið á yfirsjónum opinberra starfsmanna í framtíðinni. Prófessorinn sagði til dæmis spurður um þyngingu dóms að "Þeir sem bera ábyrgð og gegna trúnaðarstörfum og...njóta þá betri kjara en aðrir, svona sem kalla má sauðsvartan almúgann...mér finnst ekkert óeðlilegt þó það séu meiri kröfur gerðar til þeirra og í hegningarlögunum, ég held það sé 128. grein, þá má...þyngja refsingu um helming þegar opinber starfsmaður fremur brot." (Sigurður Líndal á Stöð 2, 7. febrúar 2003). Hér er tvennt sem tæknilega orkar tvímælis. Í fyrsta lagi: Hvernig er hægt að tengja saman kjör manna og refsingu, eins og prófessorinn gerir? Er hægt að halda því fram að betri kjör eigi að leiða til þyngri refsingar? Gilda m.ö.o önnur refsiákvæði um yfirstéttina, en "sauðsvartan almúgann" eins og Sigurður kallar allan almenning? Stangast þessi hugsunarháttur ekki á við sjálfan grundvöllinn, grunnhugmynd stjórnarskrárinnar um að allir séu jafnir fyrir lögunum? Í öðru lagi og tengt þessu síðasta: Hvernig samræmist það stjórnarskrá íslenska lýðveldisins að dæma opinbera starfsmenn til þyngri refsingar, en yfirstéttarmenn sem reka einkabisness? Hér rekur sig hvað á annars horn. En gott og vel, hugsum okkur að lagaprófessorinn eða aðstoðarritstjórinn hefðu rétt fyrir sér og að það stæðist ákvæði stjórnarskrárinnnar að þyngja dóma yfir opinberum starfsmönnum og þeim "sem njóta betri kjara en aðrir" svo vitnað sé til lagaprófessorsins. Árni Johnsen var alþingismaður á þingfararkaupi. Kjörin sem hann býr við eru bærileg borin saman við það sem tíðkast hjá almennum launamönnum, en það er af og frá að alþingismenn séu yfirstéttarmenn í kjaralegu tilliti. Háskólaprófessorar sem taka að sér aukastörf fyrir stofnanir og fyrirtæki, aðstoðarritstjórar, eða hæstaréttardómarar sem sinna sérlaunuðum aukastörfum eru til dæmis mun betur settir kjaralega en alþingismenn eru almennt talað. Það er því vafasamt að þyngja dóminn yfir Árna Johnsen á þessum kjaralegu forsendum eins og prófessorinn gefur í skyn að gera megi, eða hafi verið gert. Sama gildir í raun um refsingar sem byggjast á stöðu atvinnurekendans. Það er fráleitt að þyngja megi dóm yfir fréttamanni á Ríkissjónvarpinu sem brýtur af sér á nákvæmlega sama hátt og fréttamaður á Stöð 2! Samt sem áður kemst lagaprófessorinn að þessari niðurstöðu um dóminn: "Mér finnst hann mjög vandaður og mér finnst einmitt, ég tók sérstaklega eftir því þegar ég las hann, bæði héraðsdóm og hæstarétt. Mér finnst vera tekið mjög tillit til alls þess sem má vera sökunaut í hag. Þannig að ég held bara að verjendur hafi bara unnið sitt starf með prýði." (S. Líndal, Stöð 2, 7. febrúar 2003). Að svo miklu leyti sem íslensk lagahefð endurspeglast í umræðum sérfræðinga um dóminn yfir Árna Johnsen þá gef ég lítið fyrir hana. Fjórða atriðið sem þú víkur að Ögmundur eru skilaboðin. Í því ljósi sem hér hefur verið beint að Hæstarétti, eða hæstaréttardómurunum sjálfum, vegna dómsins yfir Árna Johnsen er rétt að taka fram að ég er ekki að gera athugasemdir við refsinguna sem slíka. Brot hans var alvarlegt. Hann reyndi að ljúga sig frá málinu og hann reyndi að kenna ákveðnum fjölmiðlum eða fréttamönnum um yfirsjónir sínar. Frá því sleppur hann ekki. Ég er hins vegar að tala um refsinguna. Refsingin er það sem er áþreifanlegt sagði ég í fyrra bréfi mínu, en á sama hátt verður að setja þessa refsingu í samband við þá refsingu sem barnaníðingurinn, nauðgarinn, og ofbeldismaðurinn fá útdeilt í Hæstarétti, eða sá silkiklæddi hlyti, sem kæmist yfir 200 milljónir króna með innherjaupplýsingum, eða öðrum ólöglegum hvítflibbahætti. Á meðan dómarar leggja að jöfnu, í skilningi refsingarinnar, brot Árna og viðbjóðsleg kynferðisbrot, þá stend ég við að refsing Árna er harðneskjuleg, og í ljósi þess sem hér er dregið fram að ofan um mismunun og "stéttarefsingu" í málflutningi lagaprófessors þá vonast ég til að allar forsendur dómsins, dómurinn sjálfur, stjórnarskrárákvæði sem snerta hann og "stéttadómshugsunin" verði lögmönnum en umfram allt laganemum umhugsunarefni..
Hafsteinn
Sæll Hafsteinn.
Enn vekur þú upp grundvallar spurningar Hafsteinn. Mín tilfinning er sú að við gerum oft meiri kröfur til þess einstaklings sem ráðinn er af "okkur" , það er að segja samfélaginu, til að sinna tilteknum verkum að ekki sé minnst á ef viðkomandi er af trúað fyrir mikilli ábyrgð, en við gerum til annarra. Hitt er svo annar handleggur að dæma í réttarkerfinu á grundvelli félagslegrar stöðu manna, jafnvel festa í sessi eins konar "stéttadómshugsun" sem þú nefnir svo. Þar dregur þú upp mynd sem mér finnst þurfa að gaumgæfa rækilega og væri fróðlegt að heyra sem flesta lögspekinga og áhugamenn um mannréttindi og þjóðfélagsmál tjá sig um það efni. Varðandi þau atriði sem ég nefndi í svarbréfi mínu til þín í gær þá hef ég sannfærst um það sem ég reyndar þóttist vita, að fyrir þér vakir að finna réttlæti en ekki hefnd.
Kveðja, Ögmundur