Fara í efni

RÉTTMÆT ÁBENDING

Sæll Ögmundur.
Þú sagðir í útvarpi nýlega að þú gætir ekki sem dómsmálaráðherra blandað þér í ákæruna gegn Nímenningunum, því málið væri fyrir dómstólum. Þetta er ekki alls kostar rétt. Samkvæmt 29. grein stjórnarskrárinnar getur forseti fellt niður saksókn, og samkvæmt Hæstaréttardómi 95/1946 er ekkert athugavert við það í sjálfu sér, og það gerist með því að ráðherra leggur til að forseti geri það. Ef saksóknari ákærði einhvern fyrir að drepa mann sem er á lífi væri óeðlilegt annað en að ráðherra beitti þessu valdi til að stöðva saksóknina. Samkvæmt ofangreindum Hæstaréttardómi þurfa aðstæður þó ekki að vera svo hrikalegar til að 29. greininni sé beitt. Nímenningarnir eru ákærðir fyrir brot á 100. grein almennra hegningarlaga. Ég ætla ekki að fjölyrða um það, enda hefur verið rætt í þaula hversu fráleitt er að ákæra þá fyrir valdaránstilraun, þ.e.a.s. að svipta Alþingi "sjálfræði" þess. Ég ætla hins vegar að skora á þig að skýla þér ekki bak við að þú GETIR ekkert gert í þessu máli.
Einar Steingrímsson

Sæll og þakka þér fyrir bréfið. Þetta mun vera rétt hjá þér. Það er líka rétt hjá þér að ég hef enga löngun til að skýla mér á bak við eitt eða neitt og mun ekki reyna slíkt. Ég geri einfaldlega það sem ég tel vera rétt í þessu máli sem öðrum. Ég hef aldrei legið á þeirri skoðun minni að ég taldi mjög misráðið á sínum tíma að skjóta þessu máli til ákæruvaldsins sem síðan fór með það fyrir dóm. Þar er málið nú statt. Þegar réttarkerfið er annars vegar þarf að stíga varlega til jarðar og mun ég gera það í þessu máli sem öðrum. En eftir stendur að leiðrétting þín er réttmæt og þar með gagnrýni þín á mína framsetningu.
Ögmundur Jónasson