Fara í efni

RIDDARAR HAGSMUNAGÆSLUNNAR

Sæll Ögmundur.
Þakka svar. Ég er sammála þér um að fjölmiðlar hafi vanrækt skyldu sína vegna hlutverksins sem þeir þykjast stundum hafa og kallast að veita stjórnmálamönnum og fyrirtækjum aðhald. Innantóm orð á Íslandi. Það er rétt hjá þér líka að Morgunblaðið hefur haft uppi mesta viðleitni til að kortleggja atvinnulífið, en ritstjórn blaðsins er svo pólitísk að henni dettur ekki í hug að fjalla um það í leiðurum sem á þessu sviði er sett faglega fram á síðum blaðsins. Ég varð mér úti um samantekt blaðsins frá 5. febrúar 2004 um viðskiptablokkirnar í landinu. Þetta er góð úttekt og forvitnileg og hefði átt að kalla á miklar umræður í samfélaginu og á hinu pólitíska svið þar sem þú ert Ögmundur, en svo varð ekki. Þarna var fjallað um kaup S-hópsins á 45,8% hlut í Búnaðarbankanum. Stjórnmálamenn komu að því máli ofan, undir, til hliðar og aftan við. Þarna er líka mikið fjallað um tryggingafélagið VÍS sem er stjórnað af hægri hönd forsætisráðherra. Þarna er kominn fyrirliði S-flokksins Finnur Ingólfsson fyrrverandi iðnaðar-og viðskiptaráðherra. Ég hef ekki hugmynd um Ögmundur hvort bróðir Halldórs Ásgrímssonar er ennþá í stjórn VÍS (eins og hann var þegar Morgunblaðið birti úttekt sína í febrúar í fyrra) sem fékk að kaupa Búnaðarbankann með innlendum félögum og erlendum sjóðum en ætti stjórnarseta hans ekki að hafa gert fyrrverandi utanríkisráðherra vanhæfan til að koma með þeim afgerandi hætti að málinu á sínum tíma sem raun bar vitni? Ef stjórnarsetan tengist eign viðkomandi í Hesteyri ehf. sem Skinney-Þinganes, VÍS og Fiskiðjan Skagfirðingur áttu fyrir ári til jafns þá sýnist mér í ljósi “kjarnastarfsemi” VÍS í uppkaupum og áhrifum í KB banka að ástæða sé til að skoða mál þetta í fullri alvöru. Mér finnst líka fullkomlega eðlilegt að kanna hver eða hverjir eiga  hluti  Skinneyjar – Þinganes. Ég undirstrika að ég hef ekki hugmynd um það en ef forsætisráðherra á einhverra hagsmuna að gæta hér í gegnum síðast talda fyrirtækið þá ber að spyrja dómsmálaráðherra um það á Alþingi hvort utanríkisráðherrann fyrrverandi hafi með virkri aðkomu sinni að ákvörðunum um sölu Búnaðarbanka Íslands farið á svig við vanhæfisákvæði stjórnsýslulaga. Talsmaður fyrirtækis sem er í samstarfi við VÍS lýsti því yfir á dögunum að það fyrirtæki hefði fullan hug á að kaupa Símann. Ef forsætisráðherra eða annar stjórnmálamaður sem vélar um skilyrði sölunnar ætti nú beinna fjárhagslegra hagsmuna að gæta þyrfti þá ekki að kanna vanhæfi hans og hæfni til að fjalla um málið í afkimum framkvæmdavaldsins Ögmundur?  Siðferðislega afstöðu fer ég ekki fram á. Þú nefndir fjölmiðlana. Ég nefni Baugsmiðlana eða verkamennina í Spunaverksmiðju Hringsins. Þeir hafa ekki staðið sig á viðskiptasíðum sínum og fjalla ekki eða lítið um samband viðskipta og hinnar pólitísku kviku eins og þú kallar það þótt þeir víli það ekki fyrir sér að vaða á skítugum skónum inn í einkalíf fólks sem ekki getur varið sig eins og dómkirkjuprestur vakti athygli. Ég hef hvorki kunnáttu né tíma til að finna eigendur Hesteyrar svo dæmi sé tekið, að fylgjast með ferðum Finns í viðskiptalífinu, eða leggja mat á hæfi eða hæfni stjórnmálamanna með mörg járn í eldinum en mér finnst að þú ættir að kanna þetta Ögmundur. Þeir hjóla í þá út af svínabúum ráðherra systurflokksins í Danmörku.
Kveðja,
Stefán

Þakka bréfið. Umhugsunarvert andvaraleysi. Nokkuð sem margir þurfa að taka til sín.
Kveðja,
Ögmundur