Fara í efni

RÍKIÐ KAUPI GRÍMSSTAÐI Á FJÖLLUM

Þjóðareignin GR II
Þjóðareignin GR II

Í dag mælti ég fyrir þingsályktunartillögu á Alþingi þar sem mælst er til þess að ríkið kaupi Grímsstaði á Fjöllum. Einnig mælti ég fyrir þingsályktunartillögu um að fram fari endurskoðun á lagaumhverfi er varðar uppkaup á landi.
Bæði eru þessi mál endurflutt en áður hafði Guðfríður Lilja Grétarsdóttir flutt þessi þingmál á fyrri þingum. Síðari málinu fylgir afar vönduð greinargerð, sem ég vek sérstaklega athygli á, vilji menn kynna sér lagaumhverfi landakaupamála.
Fyrra málið byggir á áskorun sem birtist sem heilsíðuauglýsing  í lok ágústmánaðar árið 2012 með undirskriftum um 150 einstaklinga. Í umræðunni í dag las ég upp nöfn allra þessara einstaklanga og sagði að Alþingi hlyti að taka alvarlega áskorun sem kæmi frá eins breiðum hópi Íslendinga og hér um ræðir.

Ég vakti athygli á því í upphafi ræðu minnar að á umræddri auglýsingu væri „fyrrverandi forseti Íslands, læknir og leigubílstjóri, verktaki, Megas og formaður Sambands ungra bænda." Þau sameinuðust öll í áskorun til Alþingis og ríkisstjórnar að ríkið festi kaup á Grímsstöðum á Fjöllum og tryggði þar með þá jörð og aðrar ámóta í þjóðareign. Á undirskriftalistanum væru margir fleiri „ungir og aldnir, konur og karlar og alla vega á litinn í pólítík. Eins og straujað hefði verið yfir allan fyrri ágreining Morgunblaðsins, Þjóðviljans og Alþýðublaðsins því þarna voru þeir allir: Styrmir, Helgi Már og Kjartan Ólafsson - og Matthías. Líka Björk, Guðrún Kristjánsdóttir myndlistarkona, Guðmundur sundkappi Gíslason og Ólafur Stefánsson, handboltastjarna."

Síðan las ég upp allan listann. sannfrétti ég eftirá að mörgum hefði þótt upptalningin fróðleg.

Hér má hlýða á upplestur listans:: http://www.althingi.is/altext/upptokur/raeda/?raeda=rad20140211T174932 

Hér er slóð á umræðu um endurskoðun á lagaumhverfi um uppkaup á landi: http://www.althingi.is/altext/upptokur/raeda/?raeda=rad20140211T180337

Slóð á Grímsstaðamálið: http://www.althingi.is/altext/143/s/0530.html
Slóð á landauppkaupamálið : http://www.althingi.is/altext/143/s/0532.html