Fara í efni

SAGA ÚR VERU-LEIKANUM

Ein lítil saga úr íslenskum veruleika, fyrir opin-beran innanríkisráðherrann til að komast eitt augnablik niður á jörðina, þar sem venjulega og al-menna fólkið reynir að lifa og þrauka. Fimmtudaginn 28. júní, A.D. 2012, bað móðir mín, 95 ára og nánast blind orðin, mig um að keyra sig inn í Laugardalshöll, því hún taldi að það yrði sér auðveldara að kjósa þar, heldur en í Hagaskóla á kjördag, 30. júní. Það var frá minni hendi alveg sjálfsagt mál og ekki í frásögur færandi, en eftir að við vorum komin inn í Höllina og eftir að hafa þokast áfram langa biðröðina, komumst við loks að 4 borðum í raðrunu þar sem beðið var skilríkja, en þá var okkur vísað frá, vegna skorts á tilskyldum skilríkjum móður minnar. Ég hváði, en var þá bent á að við skyldum sæta færis á að fá úrskurð þeirrar embættisstýru sem æðst taldist þar og sat sú lengst til vinstri í 4 borða raðrununni og næst glugga og næst við inngöngudyr inn í kjörklefasalinn. Sú embættisstýra kvað upp þann úrskurð á staðnum, að visakort með mynd og nafni móður minnar, ásmt korti frá ferðaþjónustu blindra með nafni móður minnar og kennitölu væru ekki næg skilríki. Móðir mín háöldruð og nær blind, sagði að þessi skilríki hefðu undanfarin ár alltaf dugað henni til kosningaréttar. Það sagði embættisstýran á staðnum, að sér kæmi ekki við og spurði móður mína hvort hún ætti ekki ökuskírteini eða vegabréf. Það var eins og þessi opin-bera embættismannastýra teldi að 95 ára og nær blind kona gerði ekki annað en að keyra rauðan sportbíl og þeysast landa í milli eins og hún væri opin-ber starfsmaður hjá ríki eða sveitarfélagi, að þvælast sífellt til Brussel til að sækja þangað umslög með evru-dagpeningum. Nei, því miður ökuskírteini og vegabréf móður minnar eru löngu útrunnin. En það gaf einni hrokafullri opin-berri embættisstýru tilefni til að meina móður minni að kjósa og niðurlægja hana fyrir framan alla biðröðina. Kannski að innanríkisráðuneytið mætti fyrst gera gangskör að því að tryggja mannréttindi aldraðra og blindra hér á landi, áður en það slær sig til riddara varðandi gild eða ógild skilríki erlendra hælisleitenda.
Pétur Örn Björnsson