SAMMÁLA ÁRNA GUÐMUNDSSYNI UM DYLGJUR ÚR RÁÐUNEYTI
Ég var mjög sammála formanni félagsins míns, Starfsmannafélags Hafnarfjarðar, þar sem hann mótmælir ruglinu úr aðstoðarmanni Halldórs Ásgrímssonar, Birni Inga Hrafnssyni. Hann leyfir sér að gera því skóna á skrifum á heimasíðu, sem síðan hefur verið haft eftir í blöðum, að varðstaða BSRB um almannaþjónustu og mannréttindi sé eitthvert þröngt pólitískt hagsmunapot frá þér komið Ögmundur. Ég þykist vita að margt í baráttu BSRB er undan þínum rifjum runnið og er það hið besta mál og fráleitt að reyna að gera það tortryggilegt. En þarna koma að sjálfsögðu margir aðrir við sögu og hefur til dæmis okkar formaður, Árni Guðmundsson ásamt sínum samverkamönnum, verið iðinn við kolann. Björn Ingi, aðstoðarmaður Halldórs gerir lítið úr þessu fólki. Skyldi þetta vera gert með vitund og vilja ráðherrans? Ég hvet fólk til að sjá hvernig Árni vísar dylgjum Björns Inga til föðurhúsanna. Það má sjá hér:
http://addigum.blogspot.com/2005/05/1-ma-og-blessa-vatni-okkar.html
Hafnfirðingur í BSRB
Þakka þér kærlega bréfið. Það er óneitanlega heldur lægra risið á skrifum Björns Inga Hrafnssonar nú en þegar hann var blaðamaður á Morgunblaðinu. Hvorki er fyrir að fara víðsýni né þekkingu. Hann hnýtir í BSRB sérstaklega út af stuðningi samtakanna við Mannréttindaskrifstofu Íslands og baráttu gegn einkavæðingu neysluvatns. Um það fyrra þarf ekki að hafa mörg orð. Um það síðara hefur BSRB haft mörg orð og mun hafa enn fleiri orð á komandi mánuðum. Það er í samræmi við stefnu og baráttu verkalýðshreyfingarinnar um allan heim, ekki síst í svokölluðum þróunarríkjum. Einhvers staðar sá ég að Björn Ingi hefði verið gerður að fomanni Þróunarstofnunar Íslands og að hann væri nú á förum í langa ferð um Afríku. Hann gæti spurst fyrir um afstöðu manna þar til eignarhalds á vatni og kannski í leiðinni upplýst menn hvert framlag formanns Þróunarstofnunar Íslands hafi verið til umræðu um einkavæðingu á drykkjarvatni í sínu heimalandi.
Ögmundur