SEÐLABANKA-STJÓRI OG OKRIÐ
Sæll Ögmundur .
Nýir kjarasamningar eru í burðarliðnum og nú stendur á stjórnvöldum að unnt sé að samykkja og undirrita. Að mér skilst er það einn maður sem er í hlutverki Þránds í götu og það er aðalbankastjóri Seðlabankans sem vill halda í okurvextina. Um þetta hefi eg fjallað á bloggsíðunni: http://mosi.blog.is Þar leyfi eg mér að krefjast annað hvort verði vextirnir lækkaðir eða þessi seðlabankastjóri segi af sér. Hvað finnst þér um þessi mál Ögmundur? Það ætti að vera létt verk fyrir Björgvin ráðherra að segja upp þeim bankastjóra sem ekki er á þeirri línu að greiða fyrir kjarasamningum.
Bestu kveðjur ,
Guðjón Jensson
Sæll Guðjón og þakka þér fyrir bréfið. Ég er hjartanlega sammála þér um mikilvægi þess að ná okurvöxtunum niður. Ég held að þar sé fyrst og fremst við slælega hagstjórn að sakast og þar ber ríkisstjórnin ábyrgð. Í þessu efni horfi ég sérstaklega til stóriðjustefnunnar en til hennar má rekja þensluna í atvinnulífinu með tilheyrandi verðbólgu og háum vöxtum. Þessum fylgifiskum stóriðjustefnunnar vöruðum við þingmenn VG landsmenn við á sínum tíma. En allt kom fyrir ekki sem kunnugt er.
Kv. Ögmundur