Fara í efni

SEM FLESTA AÐ ÁKVÖRÐUNUM!

Í blöðunum í morgun ríða tveir stjórnmálamenn á eftirlaunum röftum. Það eru þeir Svavar Gestsson sem telja frammistöðu Ólafs Ragnars í embætti forseta svo skaðlega að það þurfi að koma í veg fyrir að slíkt geti endurtekið sig. Svavar tiltók raunar í greinarstúf í Fréttablaðinu um daginn að væri forseti sem ekki væri sameiningarákn hefði brugðist hlutverki sínu. Nú vil ég greina á milli framgöngu Ólafs og hlutverks forsetaembættisins. Sjálfum finnst mér Ólafur hafa gert það sem þurfti til að veita ráðherraræðinu aðhald. Þar er um að ræða stjórnskipulegan óskapnað sem Davíð á e.t.v heiðurinn af að keyra í gegn á síðustu misserum. Núverandi ríkisstjórn hefur hins vegar notið þess að þurfa ekki að þróa eigin aðferðir og keyrir listilega eftir sama korti. Það er enginn munur á þessu ráðherraræði og einræði ef tvö skilyrði eru uppfyllt. Fyrsta þarf að ná meirihluta á þingi og svo þarf flokksaginn að halda. Eftir það þarf enga lýðræðislega umræðu nema til að sýnast. Þetta er stjórnskipulag þar sem almenningur getur ekkert aðhald haft með stjórnvöldum. Flokksgæðingum er raðað í embætti og valdhrokinn eykst þegar menn komast upp með allt. Þetta er það sem felldi okkur og það sem rannsóknarskýrslan varar við.
Forsetaembættið er sett upp til þess að koma fleiri valdstofnum að ákvarðanatöku. Það er það eina í okkar stjórnskipan í dag sem getur temprað einræðistilburði framkvæmdavaldsins - þegar það hefur náð að brjóta löggjafann undir sig með flokksaga. Þessir gömlu fulltrúar stjórnmálaelítunnar mega vera fúlir út í Ólaf Ragnar mín vegna og hafa eflaust sínar ástæður fyrir því. Þessi viðleitni þeirra til þess að breyta forsetaembættinu í óumdeilt, merkingarlaust sameiningartákn þjónar hins vegar engum nema þeim sem vilja beita ríkisvaldinu án hindrana til að koma málum í gegn í skjóli myrkurs. Það er kappsmál að verja sjálfstætt forsetaembætti.
Árni V.