Fara í efni

Sértækt frumvarp – sértæk andstaða

Nú hafa þingmenn Samfylkingarinnar hamrað á því að fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar sé sértækt og fram lagt til þess að koma rothöggi á Norðurljósasamsteypuna. En hvað með andstöðu þeirra gegn frumvarpinu? Er hún ekki með sama hætti sértæk? Þingmenn Samfylkingarinnar vilja engar hömlur á eignarhald á fjölmiðlum og verður það að teljast afar sérkennileg afstaða, svo ekki sé meira sagt, og hún tekur fyrst og fremst mið af hagsmunum hinna auðugu, stóru og sterku – hagsmunum Baugs í þessu tilviki.

Og svo tala þingmenn Samfylkingarinnar fjálglega um afnám prentfrelsis og skerðingu á tjáningarfrelsinu. Þvílík rök, þvílík firra! Staðreyndin er sú að með frumvarpinu er hvorki verið að vega að prentfrelsi né tjáningarfrelsi, nema í mjög sértækum skilningi. En mannréttindi á borð við tjáningarfrelsi eru innantómt gaspur nema vísað sé til almennra réttinda en ekki sértækra. Mannréttindi geta nefnilega aldrei verið sértæk. Sértækt tjáningarfrelsi auðhringa á borð við Baug getur meira að segja fremur en hitt vegið að tjáningarfrelsi heildarinnar. Vert er að hafa þetta allt í huga í því þrefi sem nú stendur um framtíðarskipulag á fjölmiðlamarkaði hér á landi.
Ingólfur