Fara í efni

SIÐFERÐI HÉR OG ÞAR

Sæll Ögmundur.
Reuters fréttastofan sendi frá sér frétt í gær. Fréttin var um siðferði danskra hægri manna, um ungan dómsmálaráðherra, Lene Espersen. Lene þessi lét þess getið þegar hún kom fyrir fjárlaganefnd danska þjóðþingsins að hún hyggðist láta kanna, hvort ástæða væri til að ábyrgðarvæða þá sem stýrðu danska fjármálaeftirlitinu. Nú hefur Lene Espersen falið óháðum lagasérfræðingum að kanna hvort efni eru til þess að höfða mál gegn stjórnendum og ábyrgðarmönnum danska fjármálaeftirlitsins á grundvelli laga um réttindi og skyldur þeirra sem gegna opinberum embættum. Svona bregst hægri stjórnin í Danmörku við í siðferðislegum álitamálum. Tilefnið er gagnrýni á eftirlitið vegna falls eins banka, Hróarskeldubankans, ekki heils bankakerfisins eins og hér. Það er danski dómsmálaráðherrann sem er að láta kanna þetta fyrir sig og hún felur sig hvorki á bak við sérstakan saksóknara, saksóknara, eða lögreglu, eins og hér er jafnan gert á grundvelli lagagreina, sem efnislega eru danskar, en eru í lagasafninu okkar í íslenskri þýðingu. Af þessu tilefni vildi ég spyrja þig Ögmundur: Hefur ekkert svona komið til tals við háborð ríkisstjórnarinnar? Sé svarið nei vildi ég spyrja um annað: Við hvað erum þið hrædd í ríkisstjórninni?
Ólína