Fara í efni

Skilyrtar undirtektir

Ég er hjartanlega sammála Steingrími Ólafssyni í því sem fram kemur í prýðilegri grein hans hér á síðunni 24/6 undir fyrirsögninni Tvígengisvélin hikstar. Það er rétt hjá honum að pólitískur mótor þeirra Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar hikstar heldur betur. Sennilega og vonandi er hann að bræða úr sér. Ég er líka sammála þér Ögmundur að vinstri menn eiga að semja við Samfylkingarkratana um myndun næstu ríkisstjórnar, jafnvel gera kosningabandalag einsog Steingrímur Ólafsson leggur til. En við megum ekki gera þetta hvað sem það kostar! Ég fylgist nokkuð vel með pólitík, tel ég vera, og að sjálfsögðu hefur það ekki farið framhjá mér að Samfylkingin hefur talað fyrir markaðsvæðingu innan heilbrigðiskerfisins og var tilbúin að heimila einkavæðingu vatnsins. Samfylkingin er því að sjálfsögðu stórvarasöm. Þess vegna segi ég: samstarf en með skilyrðum.
Kveðja,
Sunna Sara