Fara í efni

SKOTIÐ YFIR MARKIÐ

Sæll Ögmundur.
Sem formanni míns félags BSRB finnst mér að þú hafir skotið yfir markið með mynd af GÞÞ við hlið Gaddafis og finnst mér að þú ættir að fjarlægja hana af síðunni og biðja viðkomandi afsökunnar. Það þarf að gæta að sér sem formanni stærsta stéttarfélags landsins og alþingismanns að gera sig ekki marklausan með svona strákapörum. Ég las bækling þessa sérfræðings sem þýddur hefur verið og lesið frumvarpið sl.2 daga enda á eftirlaunum og nægur timi. Ég þekki GÞÞ persónulega sem góðan dreng þótt ég hafi gengið úr flokki blámanna nýlega vegna stefnuleysis formannsins á að stýra þjóðarskútunni yfir ólgusjó og hefði fyrir mitt leyti vilja skipta dýralækninum út og setja Pétur Blöndal inn í Fjármálaráðuneytið og taka þar vel til. Ég sé ekki í þessu frumvarpi það sem varað er við í þessari bók BSRB en ég fylgist vel með NHS í UK en þar er allt farið úr böndum fyrir löngu síðan aðallega fyrir ofurlaun fostjórans tugi milljóna á mánuði og millistjórnenda sem hafa hærri laun en forsætisráðherra. Það sem skekur kerfið hjá þeim og olli útboðum annarsstaðar voru þrálátar sýkingar sjúklinga eftir aðgerðir og í raun lífshættulegt að fara þar í aðgerð enda mikill sóðaskapur sem viðgengst þar rottur spranga um og moskitóflugur sem ekki hefur tekist að stemma stigu við. Fjárútlát í NHS er botnlaust dý samkvæmt frétt í Daily Mail fyrir 3 vikum síðan og skilar engu þar sem þetta er orðið stjórnlaust með öllu. Nýlegur þáttur á 60 mínútum sem sýndur var hér var um aldraðan orustuflugmann sem fyrir 25 árum setti á fót hjálparlið heilbrigðistétta til þess að fara um heiminn og hjálpa nauðstöddum,allt unnið í sjálfboðavinnu og öll tæki og tól gefin. Hann fór ekki nema 3 ferðir erlendis en fer nú 2 á ári um flest fylki USA þar sem 55 milljónir eru án sjúkratrygginga eða of litlar og það fólk er á eigin ábyrgð. Fólk byrjaði að streyma að um miðja nótt aðfaranótt föstudags í biðraðir en opnað var kl.0600 og aðeins hægt að afgreiða 600 manns á dag.Þarna voru skurðlæknar tannlæknar krabbameinslæknar sem tóku brjóstamyndir af konum og einn 3 barna faðir hafði ekið 300km til að fá aðgerð á tönn sem þau áttu ekki fyrir og var ég verulega hugsi á eftir í þessu alsnægtarríki þá skuli raunástand vera svona. Þeir læknar sem starfa á sjúkrahúsum séstaklega kvensjúkdómalæknar eru hættir í sinni sérgrein vegna svimandi starfstryggingaiðgjalda allt upp í 20 milljónir US á ári vegna málaferla en bandarískur almenningur er sérhæfður í því. Mér sýnist að í þessu frumvarpi sé séð fyrir ókeypis lyfjum og þjónustu fyrir langveika utan sjúkrahúsa en í dag þurfa foreldrar að greiða gríðarlegar upphæðir í lyf úr eigin vasa vegna krabbameins sem dæmi og hefði mér fundist rétt að þú skoðaðir niðurgreiðslur á lyf lyfjaflokka og skoðaðir hvort ekki mætti krukka í það örlítið öllum til hagsbóta. Að lokum vil ég segja þér Ögmundur að það eru mörg frumvörp þverpólitísk frá öðrum flokkum sem eru ekki svo slæm þannig að þú hlýtur að sjá eitthvað skynsamlegt frá öðrum ekki bara það sem þinn flokkur framvísar ekki satt? Gangi þér allt í haginn.
Þór Gunnlaugsson

Þakka þér bréfið Þór, umvandanir þínar í bland við góða kveðju eru vel þegnar. Frumvarpið virðist að sönnu sakleysislegt. Staðreyndin er þó sú að verið er að færa heilbrigðisþjónustuna alla inn í viðskiptaumhverfi - samskiptin verða á milli kaupenda og veitenda þjónustu. Síðan eru ráðherra veittar miklar heimildir til að móta stefnu innan þessara mjög svo rúmu laga - og ráðherra sem gefinn er fyrir einkarekstur er líklegur til að nýta sér þetta.
Á þetta benti Allyson Pollock í erindi sínu og sagði að heilbrigðisþjónustunni bresku hefði verið breytt í smáum skrefum - 30 breytingar á lögum á tveimur áratugum - en grunnlöggjöfin hefði verið sett 1991. Hið umdeilda frumvarp væri einmitt í ætt við hana.
Með góðum kveðjum,
Ögmundur