SLÆM STAÐA Á VINNUMARKAÐI
Má reka Íslendinga úr vinnu og ráða útlendinga í staðinn? Því miður er þessi staða komin upp í dag á íslenskum vinnumarkaði?
Valgerður
Þakka þér bréfið Valgerður. Samkvæmt almennri reglu á íslenskum vinnumarkaði má segja fólki upp störfum ef atvinnurekanda býður svo við að horfa. Um þetta gilda strangari reglur hjá hinu opinbera og fer það mjög fyrir brjóstið á mörgum frjálshyggjumanninum að ekki skuli heimilað að segja fólki upp störfum skýringarlaust. Það sem ekki má gera er að segja fólki upp og ráða annan starfsmann á kjörum sem eru lægri en samningar kveða á um. Það er nokkuð sem reynt er að gera gagnvart innfluttum farandverkamönnum. Þetta er ólöglegt. Vandinn er hins vegar sá að víða er kauptaxtakerfið handónýtt þannig að atvinnurekandi getur séð sér leik á borði að segja upp starfsmanni sem hefur notið yfirborgana og ráða annan á strípuðum taxta. Þetta þarf í sjálfu sér ekki að vera lögbrot. Hins vegar er verkalýðshreyfingin að reyna að taka á þessu með því að láta viðmiðið ekki eingöngu vera kjarasamningsbundin laun heldur markaðslaun hverju sinni. Mín skoðun er sú að eina leiðin til að mæta þessu sé að endurreisa kauptaxtakerfið þannig að það endurspegli raunveruleg laun. Um þetta fjallaði ég meðal annars í ræðu minni 1. maí sl., sbr. HÉR
Kv.
Ögmundur