Fara í efni

SÖLUMENN DEYJA EKKI HÉR

Birna Einarsdóttir, bankastjóri, sinnir held ég því starfi vel sem hún er ráðin til. Hennar er að ávaxta pund þess sem er skráður fyrir Íslandsbanka, sá sem á bankann, eða hefur leyfi til að reka hann. Ef bankastjóra sýndist svo getur hann gefið samþykki að setja duglegan, sunnlenskan bónda út á Guð og gaddinn, með fjölskyldu. Eins konar fjölskyldupakki Íslandsbanka. Eigandinn eða rekandi bankans þarf jú sitt.

Nú tilkynna þau Birna og Árni Magnússon, fyrrum aðstoðarmaður Halldórs Ásgrímssonar, og einn bakvarðanna í REY-máli Sjálfstæðis-og Framsóknarflokks, að þau hyggist opna kontór í New York. Kannske þau opni aftur búlluna sem þau kynntu fyrir þremur árum. Nei, þá var það útrás. Nú stendur til að liðka fyrir innrás, eða jafnvel útrás og innrás. Mann grunar að nú skuli selja hugmyndina um fé og "gríðarlega uppbyggingu á Íslandi" gegn aðgangi að sameiginlegum orkuauðlindunum þjóðarinnar. Það er ekki að spyrja að því: Þar sem sölumenn fara um héruð eru Finnar og Halldórar ekki langt undan.

Birna Einarsdóttir var flott á einhverrri sjónvarpsstöðinni þegar hún var að selja hugmyndina, en fréttamaðurinn hefði átt að ganga harðar fram. Hann hefði heldur ekki átt að leyfa Birnu bankastjóra að standa við klæðisstranga, eða auglýsingaflagg, sem á stóð: Velkomin í Íslandsbanka. Uppstillingin var auglýsing og svona auglýsingar má fréttamaður ekki birta. Þessi þáttur málsins var auglýsing í fréttinni. Vonandi að bændafjölskyldur af Suðurlandi láti ekki blekkjast af Velkomin í Íslandsbanka, eða misskilji slagorðið.

Það var svo kostulegt að heyra viðtal við mann frá New York sem hugðist útskýra hvað Íslandsbanka gengi til í tilefni orða þinna Ögmundur. Hann sagði efnislega að ekki væri meginmálið að koma útlendingum inn í sameiginlega auðlind, og hann sagði líka að nú "væru opnar dyr" og nokkrir fleiri 07-frasar fylgdu í leiðinni.

Hér á landinu bláa yrðum við að endurskíra og endurskrifa hið targíska verk Arthurs Millers ef við ætluðum að láta það ná til lukkuriddara landans. Tillaga í þessu sambandi: Sölumenn deyja ekki hér.
Kveðja,
Ólína