SPURNING OG SVAR
Sæll Ögmundur
Varðandi auðkennismálin. Af hverju fór Íslykillinn í þróun hjá Advania án útboðs? Þetta Advania dekur hjá ríkinu er óskiljanlegt og því skil ég ekki málflutning þinn þegar þú bendir á að Auðkenni er í eigu bankanna og Símanns. Íslykillinn getur verið í eigu Þjóðskrár en í þróun hjá Advania án þess að eiga möguleika á að fara þaðan út. Hver er munurinn að versla við Advania eða Auðkenni?
Kv/Johannes
Sæll Jóhannes og þakka þér bréfið. Ég hef grennslast fyrir um efnisatriði spurningar þinnar og kemst að eftirfarandi:
Íslykillinn er í eigu Þjóðskrár Íslands (ríkisins), sem stýrir þróun hans og ákveður hverjir sjá um forritun.Íslykillinn er hluti af innskráningarþjónustu Ísland.is, þar sem upphaflega var boðið upp á innskráningu með veflykli skattsins eða rafrænum skilríkjum. Íslykillinn leysti svo veflykil skattsins af hólmi, en um tíma var mögulegt að nota hvorn lykilinn sem var.
Nokkur fyrirtæki (Skýrr (nú Advania), Hugsmiðjan, Bithex o.fl.) voru í upphafi fengin ásamt sérfræðingum ríkisins til að vinna að þróun innskráningarþjónustunnar, en lögð var áhersla á að fá hæfustu sérfræðinga til verksins.
Innskráningarþjónustan er nýtt af 100 stofnunum og fyrirtækjum og þarf að vera í gangi allan sólarhringinn allan ársins hring. Þegar kom að því að bæta Íslyklinum við innskráningarþjónustuna þurfti að vinna hratt, enda náðust ekki samningar við ríkisskattstjóra um víðtæka notkun veflykils skattsins í innskráningarþjónustunni. Það var mat Þjóðskrár Íslands að best væri að semja við Advania um forritun Íslykils til að tryggja áfram trausta innskráningarþjónustu. Kostnaður var 12 m. kr. en sú upphæð er undir útboðsmörkum. Þá var fyrirtækið Capacent fengið til að sinna öryggisúttekt og öryggisráðgjöf.
Þar sem þjónustan þarf að vera í gangi allan sólarhringinn, þá var hún sett í hýsingu hjá Advania (áður Skýrr), þar sem allt of kostnaðarsamt hefði verið fyrir Þjóðskrá Íslands að vera með tæknimenn á vöktum allan sólarhringinn til að halda þjónustunni gangandi. (Kostnaður við hýsingu er innan útboðsmarka).
Þjóðskrá Íslands getur hvenær sem er fært viðhald hugbúnaðar og hýsingu til annarra, telji hún gæði og öryggi betur tryggð þannig.
Framangreindar upplýsingar hef ég aflað mér hjá starfsmönnum Þjóðskrár.
Með bestu kveðju,
Ögmundur