STJÓRNARLIÐAR Í STUÐI
Sæll Ögmundur.
Þú sagðir í ræðu þinni á eldhúsdeginum að vandinn við fólk sem stundar partý í óhófi sé sá að það missi hæfileikann til að skoða umhverfi sitt af raunsæi, það missi fókusinn á veruleikann. Þetta sannaðist rækilega í ræðum stjórnarsinna, allar með tölu voru þær því marki brenndar að aumingja fólkið er greinilega enn í dúndrandi afmælisvímu eftir tíu ára samstarfsafmælið á dögunum. Skemmtilegasta dæmið þar um fannst mér innkoma Guðna landbúnaðarráðherra. Hann birtist sem jafnan fyrr eins og skrattinn úr heiðskíru lofti og byrjaði lofræðu sína um ríkisstjórnina á því að segjast hafa tekið sérstaklega eftir því að þú hefðir í ræðu þinni ekki vikið einu orði að Stalín. Ekki skildi ég alveg samhengið þarna hjá Guðna. Getur verið að hann sé svo illa leikinn af langvarandi partýum að hann standi í þeirri meiningu að Stalín og hann séu samráðherrar? Eða er þetta bara gælunafn á einhverjum ráðherranum? Minntist þú ekki örugglega bæði á Davíð og Halldór? Ef svo er sé ég enga aðra skynsamlega skýringu á dularfullu tali landbúnaðarráðherra en að þarna sé um afleiðingar óhóflegs partýhalds að ræða.
Kveðja,
Guðfinna