Fara í efni

STÖÐUGLEIKI OG ÓTTI

Í fyrndinni var til lýðræðiskynslóð í Alþýðubandalaginu. Lýðræði var það sem sú kynslóð vildi sjálf kenna sig við, og notaði til að aðgreina sig frá ASÍ-arminum, Svavars-arminum, eða öðrum sem þá þóttu standa í vegi fyrir framsókn umbótaaflanna í flokknum. Sá, sem bæði leynt og ljóst, fór fyrir hersingunni þá gegnir nú embætti kosinn af þjóð sinni í lýðræðislegustu kosningunum. Því er þetta rifjað upp nú, tuttugu árum síðar, að í þessum arma átökum Alþýðubandalagsins, þar sem hoggnir voru menn og aðrir, slitu sumir þeir pólitískum barnskóm sínum, sem gegna nú ráðherraembætti. Átök, eða hin dýpri pólitísku plott, urðu því óhjákvæmilegur fylgifiskur þess stjórnmálalega þroska, sem vænir menn og velmeinandi öðluðust. Þess vegna þótti sumum andstæðingum þessa hóps það vera öfugmæli, að kenna sig við kynslóð lýðræðis og hvetja til þess að menn störfuðu fyrir opnum tjöldum, eða það sem nú er kallað opin rými og vísar til orða Lundells: Jag trivs bäst i öppna landskap, nära havet vill jag bo, några månader om året, så att själen kan få ro.

 

Greinar og greiningar iðnaðarráðherra benda ekki beinlínis til að hann njóti sálarrórinnar sem nábýli við hafið færir mönnum. Nú fjallar hann um stöðuguleika og ólgu, og er hvorki að tjá sig um Írak, né orkuver. Ráðherrann er að fjalla um þau pólitísk átök sem hann þykist sjá fyrir sér stjórnarandstöðumegin í tilverunni. Útsýn ráðherrans einkennist af gleraugunum sem hann virðist hafa brugði upp og þeim stjórnmálalega þroska sem áður er getið.

 

Vel má vera að VG og Framsóknarflokkurinn standi nú frammi fyrir uppgjöri í röðum stuðningamanna sinna fyrir þá sök eina, að forystumennirnir komu flokkum sínum ekki í ríkisstjórn, hvorki til hægri né vinstri. Það uppgjör bíður þá nýs dags. Mér býður hins vegar í grun, að það uppgjör gæti orðið hjóm eitt, borið saman við þau átakaefni, sem lúra í vatnsskorpu stjórnarsáttmálans, að ekki sé talað um það apalhraun stjórnmálanna, sem Samfylkingin er, og uppgjör formannanna, sem frestað var með yfirlýsingu um sátt og samlyndi sem hengd var upp í strætóskýlum í Reykjavík mánuði fyrir kosningar.

Ég sá að fyrrum samstarfsmaður núverandi iðnaðarráðherra túlkaði fréttablaðsskrif hans svo, að þar væri ráðherra að setja stjórnarandstöðuna á bás. Þeim annars ágæta manni virðist hafa yfirsést hið augljósa, að spyrja sig spurningarinnar, sem hlýtur að vakna við lestur greinar ráðherrans: Vilda´nn frekar vera í öðr´vísi stjórn?

 

Ætli ónot ráðherrans í garð Morgunblaðsins megi ekki öðrum þræði rekja til þess að þetta er spurningin, sem lá til grundvallar Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins. Bréfi, sem veldur því að sumir forystumenn Samfylkingarinnar geta ekki á heilum sér tekið, þegar ritgerðina þá ber á góma. Sá höfundur er ekki sleginn glýju óminnis ljósvakans sem svo mjög einkennir pólitískar umræður dagsins.


Kveðja,
Stefán