TAKIÐ YKKUR TAK
Sæll Ögmundur Þetta er nú ekki beinlínis bréf til síðunnar í eiginlegri merkingu þess orðs, heldur frekar ádrepa til þín og samráðherra þinna. Þú ræður hins vegar hvað þú gerir við það, hvort þú birtir það eða bara heldur því fyrir þig. Ástæðan fyrir þessum skrifum er að mér er gersamlega ofboðið hvernig stjórnarandstöðunni og ýmsum öðrum svo sem atvinnurekendum hefur tekist að berja það inn í hausinn á almenningi að ríkisstjórnin sé ekkert að gera og það án þess að vart verði við mikla viðspyrnu af hálfu ráðuneyta eða þingmanna stjórnarinnar. Tólfunum fannst mér kastað fyrir um viku síðan þegar Unnur Brá Konráðnsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokks fullyrti í þættinum Vikulokin að vandi hjónanna sem fóru til Indlands til að fá staðgöngumóður fyrir barn sitt hafi stafað af klúðri ríkisstjórnarinnar. Í þættinum komu líka fram tveir stuðningsmenn stjórnarinnar, annar var þingmaður þíns flokks, Þráinn Bertelsson, og hitt Þórhildur Þorleifsdóttir sem er með innstu koppum í búri Samfylkingar og bæði létu þetta yfir sig ganga án þess að segja múkk eða einu sinni spyrja þingmanninn í hverju klúður ráðuneytisins væri fólgið. Með sama áframhaldi skiptir engu þótt ríkisstjórninni takist að rétta skútuna af, eins og reyndar allt bendir til að takist, í augnablikinu. Stjórnarflokkarnir munu skíttapa næstu kosningum vegna þess að það verður búið að berja það inní hausinn á þjóðinni að stjórnin hafi ekki gert neitt nema klúðra málum. Þið verðið að taka ykkur tak í þessum efnum, ráða harðsnúinn fjölmiðlamann til að koma því á framfæri sem verið er að vinna að og vekja athygli á því sem hefur verið gert. Ég er ekki að tala um einhvern spunameistara, slíkir hafa ekki reynst svo vel hingað til, heldur alvöru fólk. Mér virðist því miður að leiðtogi flokks þíns hafi lítinn skilning á aðgerðum af þessu tagi, haldi kannski að hér í borginni eigi það sama við og í Þistilfirðinum, að allir viti að flórinn í fjósinu á Gunnarsstöðum sé best mokaði flór á svæðinu. Því miður er annað upp á teningnum hér fyrir sunnan og það skilur á milli feigs og ófeigs hvort menn komi sínum málstað á framfæri með heppilegum hætti.
Bestu kveðjur,
Guðmundur J. Guðmundsson