Fara í efni

TEKIÐ UNDIR MEÐ BIRNI BJARNASYNI

Ég get ekki, frekar en Björn Bjarnason, sagt af hverju kjósendur Sjálfstæðisflokksins strikuðu nafn hans út á kjörseðlinum sem þeir réðu yfir sl. laugardag. Hafi þeir fjölmörgu látið Jóhannes Jónsson, kaupmann í Bónus og milljarðamæring, leiða sig inná braut útstrikana, án þess að taka afstöðu til verka Björns finnst mér að Björn geti sagt stoltur: Gott að þetta fólk kaus mig ekki. Eitt er að auðmaður hvetji kjósendur til þess í dýrum auglýsingum að taka að sér hlutverk refsivandar fyrir sig. Annað er að láta nota sig með þessum hætti. Skömm þeirra sem það gera skýrir sig sjálf. Jóhannes Jónsson, kaupmaður og milljarðamæringur, má auglýsa hvar sem er og hvað sem er fyrir mér. Hann getur auglýst kjúklingalappir opinberlega og hann getur líka auglýst þær á sunnudagsfundi í Valhöll, eins og hann gerði í eina tíð, og hann getur hvatt til samblásturs gegn einstaklingum, eins og hann vill. Það er okkar að ákveða hvort við kaupum kjúklingalappir, eða ráðumst gegn einstaklingi undir gunnfána auðmanns. Það er vont hlutskipti. Ég hef tilhneigingu til að líta á auglýsingu Jóhannesar í samhengi við það sem lögfræðingur Baugs lét sér um munn fara í Kastljósi þegar Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm sinn yfir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Tryggva Jónssyni í byrjun maí. Ef ég man þau orð rétt þá sagði lögmaðurinn eitthvað á þá leið, að Jón Ásgeir Jóhannesson færi fyrir stærsta einkafyrirtækinu á Bretlandseyjum, hann veitti tugum þúsunda manna atvinnu og að menn þyrftu að átta sig á þessu. Hann sagði, að það væri ekki eins og fólkið, sem byggði upp Baug, hefði ekki skilað árangri í störfum sínum, og hvatti menn til að hafa það hugfast og þau miklu og eftirsóknarverðu lífskilyrði sem fjölskyldan hefði skilað okkur öllum. Hvernig bar að skilja þessi orð? Er það árangurinn í störfum forráðamanna Baugs sem eiga að ráða því hvort þeir eru dæmdir, eða ekki? Nei, lögmaðurinn getur ekki verið þeirrar skoðunar. Á að taka sérstakt tillit til landvinninga Íslendinga á Bretlandseyjum, frægð þeirra og frama, þegar þar til bærir menn taka ákvörðun um rannsókn meintra sakamála, eða þegar dómar eru kveðnir upp? Er það af þessum sökum sem Jóhannes Jónsson telur sig geta keypt sér samblástur gegn Birni Bjarnasyni? Ef skilningur manna er þessi þá eru menn í raun að tala um tvenns konar réttarfar. Kannske er hugmyndin sú, að réttast væri að setja líka sérstök refsilög sem gilda um auð- og valdamenn? Ekki bara sérstök skattalög. Spurningar af þessu tagi hljóta að vakna þegar auglýsingar og kastljósviðtal 3. maí sl. eru skoðuð saman. Við erum hér nokkrar vinkonur sem teljum að nú reyni fyrir alvöru á þá sem ótt og títt tjá sig á opinberum vettvangi því full ástæða er til að taka undir með Birni Bjarnasyni þegar hann segir og spyr: “Ég lýsi áhyggjum yfir þróun stjórnmálastarfs og raunar réttarríkisins sjálfs, sé talið sjálfsagt og eðlilegt að beita ofríki í krafti auðs í því skyni, að tryggja sér viðhlæjendur á þingi, í réttarsalnum og hjá ákæruvaldinu. Er ekki tímabært að stalda við og líta á alvöru málsins?” Það er ekki bara tímabært að staldra við. Það er bráðnauðsynlegt. Björn Bjarnason nefnir löggjafarvaldið og dómsvaldið. Hann hefði líka geta nefnt fjórða valdið svokallaða – valdið sem á að upplýsa almenning, en minnir æ meir á gjallarhorn sem gólar í þágu eiganda síns, eða handhafa, hvort sem hann kennir sig við Hringadrottin, eða o há eff.
Kveðjur,
Ólína