TELUR ÞÚ AÐ BUSH MUNI SKERÐA ALMANNATRYGGINGAR?
Ef bandaríska þjóðin væri spurð þessarar spurningar myndi hún án efa svara játandi. Þar með væri ekki sagt að hún væri fylgjandi niðurskurði í tryggingakerfinu. Þetta datt mér í hug þegar ég sá skoðanakönnun Fréttablaðsins um Össur og Ingibjörgu Sólrúnu. Þar var spurt hvort þeirra menn teldu að myndi vinna í fyrirhuguðu formannskjöri í vor. Þeir sem hanna spurningar af þessu tagi vita að skoðanakannanir geta verið skoðanamyndandi. Eru þetta heiðarleg vinnubrögð? Ekki finnst mér það. Ekki svo að skilja að ég hafi rétt á að skipta mér af formannskjöri í Samfylkingunni þar sem ég styð hana ekki. Mér finnst þó skipta máli hvort þessi flokkur stefnir til vinstri eða hægri. Mín tilfinning er sú að Ingibjörg Sólrún sé höll undir hugsanagang nýkratanna þeirra Tony Blairs og félaga, en að Össur sé varfærnari í þeim efnum. Sjálfri finnst mér ekki bætandi á hægri hyggjuna! Hvað um það, ef Samfylkingin heldur inn á Áslandsskólabrautina mun VG blómstra sem aldrei fyrr. Það eru þó alla vega góð tíðindi!
Sunna Sara