ÞAÐ SEM EKKI VAR RÆTT
Sæll.
Ég hef stundum sagt frá því að þegar ég lá við gráturnar í Hrepphólakirkju og horfði í austur þegar ég var fermdur þá hafi ég séð ljósið,síðan þá hef ég talið mig vera vinstri mann. Þegar VG var stofnað og búið að leggja niður Alþýðubandalagið þá ákvað ég að styðja VG og hef gert það síðan. Ástæða þessa formála er sú að ég hef verið að lesa þær ályktanir sem samþykktar voru á Akureyri eða kannski það sem var ekki rætt eða gerðar ályktanir um. Það sem mér finnst vanta eru þó nokkur atriði. 1: Það er talið til tekna að fólk getur tekið út séreignasparnað. Að mínu mati er verið að pissa í skóinn sinn vegna þess að þessir peningar fara í að greiða niður skuldir en ekki í það sem þeir áttu að fara í og upphaflega var til stofnað. 2: Frestun uppboða, en ég spyr hvað gerist þegar fresturinn rennur út en nýjustu fréttir eru að Íbúðalánasjóður ætlar að bjóða upp tvö þúsund íbúðir. Hver á að kaupa þær? 3: Það er talað um fjölbreytt úrræði. Hver eru þau? Jú þau miða öll að því að fjármagnseigendur tapi sem minnst. Frysting, hvernig á leysa það þegar frystingu lýkur, lengingu lána sem dregur úr eignamyndun. Það má kannski halda því fram að þetta sé betra en ekkert en er það svo?? 4: Seðlabankinn eru það fagleg vinnubrögð að ráða bankastjóra sem var innanbúðar þegar hrunið fór fram og ekki varð ég var við miklar aðvaranir frá honum eða hann hafi varað við því sem þeir sem þá réðu voru að gera eða ekki gera. 5: Er það ásættanleg niðurstaða að erlendir vogunarsjóðir eiga orðið tvo banka og enginn veit í rauninni hverjir eiga þessa sjóði. Er það í anda vinstri stefnu?? 6: Það er tekið fram í ályktuninni að góðir hlutir gerast hægt og það er alveg satt allavega það sem snýr að okkur þessum almennu en á sama tíma heyrir maður að það gangi hraðar að afskrifa kúluláninn hjá þessum útvöldu sem koma svo í fjölmiðla og rífa kjaft. 7: Það er talað um aukið gegnsæi og lýðræði. Er það svo? Er það aukið lýðræði að Landsbankinn sem er 80% ríkisbanki ætlar ekki að auglýsa þær íbúðir sem hann á. 8: Það er kannski komið nóg í bili en mikið væri nú gaman að þið þingmenn VG færuð nú að hisja upp um ykkur buxurnar og koma út í kjördæmin og tala við okkur hina óbreyttu. Ekki hef ég allavega orðið var við ykkur.
Viðar Mgnússon