Fara í efni

ÞARF AÐ STOKKA UPP Í HEILABÚINU!

Sæll Ógmundur. Í og með skrifa ég þetta bréf mitt með vísan til myndar Gunnars Sigurðssonar, "Maybe I should have". Mér hefur lengi verið hugleikin frábær grein, sem Guðbergur Bergsson, rithöfundur, skrifaði fyrir um 30 árum "Mörg er treyjan" og mig minnir að hafi birst í Þjóðviljanum. Þar varaði hann mjög við evrópu-kratismanum, sem þá var í fæðingu. Margir hlustuðu, en flestir þeirra vildu alls ekki heyra. Í greininni fjallar Guðbergur um innantóma froðu evrópu-kratismans, glansmyndina, sem væri uppdiktuð af valdagírugum mönnum til þess eins að fela og þar með forðast allar valda-afstæður. Við sjáum hvað hann hafði rétt fyrir sér, nú 30 árum seinna. Enn er valdagíruga liðið að tala froðukennt og framleiða glansmyndir í massavís og að forðast eins og köttur heitan grautinn að ræða um raunverulegar valda-afstæður: Yfirbygginguna, sem framleiðir froðuna í fjölmiðlum, á þingi, í dómstólum, í fjármálastofnunum, mas. menntastofnunum osfrv. - og svo hins vegar hina venjulegu borgara, sem nú fer að verða fleirum og fleirum augljóst að eru réttlausir og hæddir og smánaðir. Er nema von að venjulegir borgarar þessa lands spyrji núna um réttlætið, sanngirnina og til hvers grímuklæddir valdböðlarnir séu. Þrá okkar margra er að þeir verði afhjúpir, linnulaust. Hér þarf að stokka upp, fyrst í heilabúunum, svo í framkvæmdinni, því efir höfðunum dansa limirnir. Um þetta hefur þú fjallað á ýmsan hátt í góðum skrifum þínum. Hvenær ætla fleiri VG þingmenn að sjá hið augljósa og akta samkvæmt því? Mér sýnist að þurfi að setja á fót endurmenntunar-kúrs fyrir ýmsa þingmenn VG og reyndar þingmenn fleiri flokka. Þar erum við að tala um námsefni í heimspeki og siðfræði. Gömlu góðu "fíluna", sem ætti að vera skylda fyrir alla þingmenn, ráðherra og embættismenn ríkisins, þmt. ohf. liðið. Og í lokin þyrfti próf og góðan árangur í því. Aðrar prófgráður skiptu minna máli. Kannski þyrfti að prófa raunvísindamanninn Steingrím í efni "fílunnar"? Hann á núna langt í land að geta þreytt prófið sem mestu skiptir.
Pétur Örn Björnsson