Fara í efni

ÞARF EKKI AÐ STALDRA VIÐ?

Ég hlustaði á eldhúsdagsumræðurnar og varð enn meira hugsi yfir því að þú ætlir að hætta á Alþingi Ögmundur. Ég  hef verið hugsi yfir þessu og ágerðust áhyggjur mínar við þessar umræður í þingsal. Þú kallar á auknar vinstri áherslur. En með brotthvarfi þínu veikir þú þessar áherslur. Þetta segi ég ekki í ásökunartón en þetta er því miður staðreynd. Og ég leyfi mér að hafa áhyggjur af henni!
Nú les ég að Frosti Sigurjónsson, samfélagsbankamaður, ætli að hætta líka. Það yrði mikill missir fyrir félagshyggjuna, alla vega í bankamálum. Einar K. er á förum, sennilega sá besti sem Íhaldið hefur á sínum snærum jafnvel þótt hann sé náttúrlega forstokkað Íhald. En hann er Íhald af gamla skólanum sem veit að til er samfélag fyrir utan Kauphöllina. Og svo eru fleiri með reynslu og það sem meira er, skoðanir, að hætta.
En er þetta í lagi? Ég heyri marga lýsa efasemdum. Skoðanakannanir segja að þau sem gefa sig ekki upp að öðru leyti en að tala um fæðingarhríðir Nýja Íslands, hvað sem það nú þýðir, og að pólitísk umræða sé af hinu illa, virðast njóta fylgis umfram alla aðra flokka. Hér vísa ég að sjálfsögðu til Pírata sem finnst að baráttumarkmiðið hljóti að vera nettenging! Að þvi sögðu verður þeim svarafátt.
Nei, nú þarf að staldra við. Fyrst og fremst er það þjóðin sem þarf að gera það.
Jóhannes Gr. Jónsson