Fara í efni

ÞEGAR HVÍN Í ROKKUNUM

Ég hlustaði á þig á Talstöðinni í gær Ögmundur og er sammála þér að fráleitt er fyrir Framsóknarflokkinn að reyna að hvítþvo sig af ráðingarmálinu í RÚV þótt það kunni að vera rétt að sá nýráðni sé ekki flokksbundinn framsóknarmaður og að ákvörðun hafi ekki verið tekin á þingflokksfundi Framsóknar. Auðvitað eru þarna spunamenn flokksins að verki, mennirnir sem formaður Framsóknar og forystan hefur hlaðið í kringum sig á kostnað skattborgaranna. Þeir spinna hugmynda- og hagsmunavefina fyrir flokkinn og tryggja vinum og vandamönnum ráðningar í mikilvæg embætti. Þegar við heyrum hvína í spunarokkunum erum við minnt á nauðsyn þess að koma Framsókn úr ríkisstjórn. Óþarfi er að minnast á Íhaldið. Það er búið að valda hrikalegu tjóni í þjóðfélaginu á síðustu 15 árum.
Haffi