Fara í efni

ÞEGAR ÞEKKINGIN TAPAR FYRIR HUGMYNDA-FRÆÐINNI

Þegar Bill Clinton samþykkti svokölluð  Gramm-Leach-Bliley  lög þann 12. nóvember 1999, þá varð fjandinn laus. Þessi lög afnámu Glass-Steagall lögin, lög sem áttu að tryggja að bankakreppan í Bandaríkjunum 1930-2 endurtæki sig ekki. Glass-Steagall lögin sem sett voru 1933, kváðu á um að ekki mætti reka starfsemi fjárfestingabanka, viðskiptabanka né heldur tryggingastarfsemi í einu og sama fyrirtækinu. Þessar greinar fjármálareksturs skyldu vera í aðgreindum fyrirtækjum. Slík aðgreining tryggði að hægt væri að hafa ólíkar reglur um ólíka starfsemi. Ef öllu yrði blandað saman myndi sú starfsemi verða ráðandi sem frjálslegustu reglurnar þyrfti til að þrífast, það er að segja fjárfestingarbankastarfsemin. Og það var einmitt það sem gerðist. Aftur. Fjárfestingarbankastarfsemin tók völdin. Allt var þetta fyrirsjáanlegt fólki með lágmarks sagnfræðiþekkingu. Þekkingin tapaði fyrir hugmyndafræðinni. Viskan tapaði fyrir bjartsýninni.
Í dag keypti Bank of America Merrill Lynch og sagði forstjóri BoA að þetta hefði verið tækifæri sem ekki væri hægt að hafna. Þarna var stigið mikið óheillaspor, en það er bót í máli að Bank of America er margfalt stærra fyrirtæki en Merrill Lynch. Á Íslandi er þessu öfugt farið. Þar hefur viðskiptabankastarfsemin nánast þjónað sem smurning á hina miklu fjárfestingarbankamaskínu íslensku bankanna þriggja. En galdurinn á bak við hraða uppbyggingu þeirra hefur hins vegar verið umsýsla með ævisparnað Íslendinga: Lífeyrissjóðina.
Í viðtali við BBC í dag (15. sept 2008) sagði þáverandi fjármálaráðherra Clinton´s Lawrence Summers, að afnám Glass-Steagall laganna hafi verið mistök. Mistök! Nú er rík ástæða fyrir bestu menn þjóðarinnar leggja við hlustir.  Aðgreiningu trygginga, heildsölubanka og almennra viðskiptalána verður að koma á þegar í stað, annars munu ekki aðeins bankarnir tapa heldur einnig vel stæð fyrirtæki og einstaklingar.
Björn Jónasson