Fara í efni

Þegar tveir deila – ávöxtun almennings

Sæll Ögmundur.
Fáir þekkja betur en þú aðstæðurnar sem skapast þegar menn semja um kaup og kjör. Þú veist að stundum þarf að knýja fram lausn með verkfalli, stundum knýr atvinnurekandinn fram vilja sinn með afli, lögum, eða jafnvel bráðabirgðalögum. Það kemur líka fyrir að menn ná farsælli lendingu í samningum þegar allir standa upp frá borðinu sáttir og án átaka. Þetta síðast talda virðist hafa gerst í sumar þegar stjórn Kaupþings&Búnaðarbanka lagði drög að bónussamningi við stjórnarformanninn og forstjórann, þá Sigurð og Hreiðar. Hingað til hefur þjóðfélagið einblínt á þessa tvo sem búið var að úthluta eignum úr rekstri bankans langt inn í framtíðina. Davíð Oddsson, forsætisráðherra, beinir til dæmis sjónum sínum fyrst og fremst að Sigurði og kó og sama hafa þeir flestir gert sem hafa tjáð sig um milljónasamningana. En málið er örlítið flóknara, er það ekki? Hinum megin borðsins sátu nefnilega þrír samningamenn sem hugðust færa þeim Sigurði og Hreiðari milljónatugina. Einn þremenninganna er fyrrverandi bátsmaður í skipsrúmi Davíðs Oddssonar, fyrrverandi fulltrúi forsætisráðherrans í æðstu stjórn peningamála í landinu og núverandi stjórnandi þess hluta atvinnurekstrar Sambandsins sáluga sem gekk í endurnýjun lífdaga í tíð Sverris Hermannssonar, fyrrverandi landsbankastjóra. Þetta er Finnur Ingólfsson. Ekki beindist reiði goðsins gegn Finni sýnist manni, eða hvað? Hann var að minnsta kosti ekki nefndur beint á nafn. Kannski vegna þess að Davíð veit, eins og aðrir, að sjaldan veldur einn þá tveir deila með sér ávöxtunum. Það er að mínum dómi engin spurning að ábyrgð stjórnarmannanna sem sátu hinum megin við borðið er mest í samningsferli þessu. Það breytir því þó ekki að alvarlegt er það þegar þessir tveir, þeir sem sömdu og þeir sem samið var við, deila nú meðal annars með sér þeirri neikvæðu ávöxtun lífeyrissjóða almennings, sem Kaupþing hefur sýslað með undanfarin ár. Í nafni hverra rétti Finnur Ingólfsson upp höndina við gljáfægt harðviðarborðið í haust þegar hann gekk endanlega frá upphæðunum og dagsetningunum sem lengi var togast á um? Beinist reiði forsætisráðherra ef til vill gegn þeim hluthafahópi sem Finnur er fulltrúi fyrir? Forsætisráðherra fór mikinn og háttalag fimmmenninganna hefur vonandi gengið fram af honum. Verðum við ekki að hæla Davíð, Ögmundur, fyrir að setja stjórnendasukkið meðal annars í samhengi við ávöxtun fyrirtækisins á sparifé almenns verkafólks? Hans greining er að þessu leyti skarpari en flestra fjölmiðlanna sem hafa fjallað um málið. 
 Ólína

Þakka þér bréfið Ólína.
Ég er sammála þér, að auðvitað þarf að skoða þetta mál í stóru samhengi og það hefur skort á að spurt sé hvaðan þessir peningar komi allir. Þú bendir réttilega á lífeyrissjóðina. Þeir voru margir með hluta af sjóðum sínum í fóstri hjá Kaupþingi. Það fór ekki vel í menn að sjá miklar hagnaðartölur í reikningum Kaupþings á sama tíma og hinir fóstruðu lífeyrissjóðir vor í byllandi mínus. Síðan er hárrétt hjá þér að undarlegt má heita í þessari umræðu hve lítið kastkjósinu hefur verið beint að þeim sem sátu handan borðsins: Kjölfestufjárfestum Davíðs og Valgerðar.
Kveðja,
Ögmundur