ÞÖRF Á ÁBYRGUM RÍKISBANKA
Sæll ögmundur,
ég vildi spyrja þig hvort þú teldir að hægt væri að vernda sparifjáreigendur í landinu með því að hafa einn ríkisbanka fyrir þá sérstaklega, óháð duttlungum áhættusækinna fjárfesta og eigingjanra eigenda. Þetta er mín hugsun á sparihliðina en svo líka á skuldarahliðinni finnst mér að ekki sé jafnræði þar heldur. Þeir sem nutu góðs af 110% leiðinni voru að fá miklu meiri og kannski ósanngjarna fyrirgreiðslu miðað við þá sem voru með verðtryggðar íbúðaskuldir. Sá hópur er fyrst nú að fá eitthvað gert í sínum málum. En mér sýnist að þessir hópar sem voru áhættufælnastir og varkárastir hafi afar litla vernd fyrir áföllum og vil vita hvort að það megi laga þessa stöðu þeirra. Heilbrigt fjármálakerfi hlýtur að byggja á því að þessir hópar séu vel verndaðir og betur þjónaðir en áhættusæknari hópar og beinlínis hættulegir fjárfestar. Hver er afstaða ykkar í þessum málum?
Gunnar
Mín afstaða hefur verið sú að aðskilja beri viðskiptabanka og fjárfestingasjóði og flutti ég frumvörp þess efnis í aðdraganda hrunsins. Ég hef líka talað fyrir því að við höfum ríkisbanka sem kjölfestu í okkar fjármálalífi en þá þarf hann líka að haga sér á ábyrgan hátt og lúta lýðræðislegri stjórn.
Það er rétt hjá þér að margir sem ekki fengu aðstoð í gegnum 110% leiðina en voru þar rétt undir hefðu þurft að fá aðstoð - nokkur sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mátti ekki heyra á minnst.
Ég hef verið hlynntur skuldaleiðréttingu núverandi ríkisstjórnar - þótt ég væri ósáttur við útfærsluna - vegna þess að í henni er fólgin viðrkenning á oftöku lánveitenda.
Ögmundur