Fara í efni

ÞRENGJA AÐ ALMANNARÝMINU ...

Hægrimenn hafa stundum hag af því að ríkisvaldið bregðist. Það sannar mikilvægi markaðslausna. Almennt aðgengi að þjónustu sem nýtur almanna-fjármögnunar er eitur í þeira beinum.
Jafnaðarmenn vilja helst heilbrigðis- og skólakerfi sem allir hafa aðgang að og allir greiða fyrir. Það er hornsteinn samfélags jafnræðis. Jafnra réttinda og tækifæra.
Um gervalla heimsbyggðina hafa hægrimenn þó viljað fjársvelta þessi kerfi síðustu áratugi. Þegar þau eru komin að fótum fram er bent á að ríkisrekstur geti aldrei skilað þeim árangri sem til er ætlast. Aðeins einkaaðilar gæta verðmæta og skila árangri.
Þannig er stefnt að einkarekstri, einkafjármögnun og gjaldtöku við hvert horn. Þessi mantra vill ríkið og almannarétt út úr sem flestum sviðum mannlífsins. Það er stöðugt þrengt að almannarýminu. Þar visa ég til þess sem sameinar samfélagið, þess sem allir eiga rétt á, allir eiga aðgengi að og allir fjármagna sameiginlega.
Það er fylgifiskur að almannahagsmunir mega ekki ráðstafa réttindum, heldur skulu einkaaðilar gæta verðmæta. Þeir skulu passa upp á auðlindrnar. Þar er sama hvort um er að ræða fiskinn í sjónum, vatnið, samgönguæðar eða ábyrgð á umsvifum við almannaþjónustu.
Heildarmyndin verður sú að það er settur upp gjaldtökubás við hvert fótmál. Þeir greiða sem njóta er þetta kallað. Því fleiri þættir mannlífsins sem eru arðsemisreiknaðir niður á fjölda eininga og einingaverð - því betra.
Þannig er ástandið í ferðamálunum í dag ekkert frávik frá því sem hefur verið að gerast í samfélaginu öllu síðasta aldarfjórðunginn. Ríkið er algerlega ófært um að móta stefnu og samhæfa aðgerðir til að sporna við gjaldtökubásunum. En í stóra samhengi hlutanna er ekki við öðru að búast af íhaldinu. Þetta er eitt púsl í viðbót í þeirra samfélagssýn.
Fyrir okkur hin er þetta einn naglinn enn í líkkistu samfélags með sterkan almannarétt, jöfn réttindi og stjórnvöld sem vinna að hagsmunum almennings.
Þröstur