Fara í efni

ÞÝÐIR EKKI AÐ LÁTA EINS OG EINFÖLDUSTU HAGFRÆÐILÖGMÁL GILDI EKKI

Mér finnst stundum eins og vanti Hagfræði 101 í málflutning þinn og reyndar fleiri þingmanna. Í fyrsta lagi er skattur á hagnað fyrirtækja 18% og síðan geta þau greitt arð af því sem eftir stendur, og greiðir þá móttakandinn 10% fjármagnstekjuskatt. Samtals eru því greidd 28% af hagnaðinum í skatta áður en hann endar hjá "fjármagnseigandanum". Ef þú hækkar þessa skatta rýrirðu áhuga fjárfesta á að setja fé í fyrirtæki, sem síðan skapa atvinnu. Í öðru lagi þá tapa allir á því að frumkvöðlar (annað orð yfir "þotuliðið") fari úr landi eins og mér sýnist þú mæla með. Ég sé ekki hvaða hagsmunum væri verið að þjóna með því, öðrum en öfund. Í þriðja lagi þá verður fólk að skilja að ef banki eða annað fyrirtæki er með segjum 10 milljarða í eigið fé, þá verður bankinn/fyrirtækið að skila eðlilegri ávöxtun (hagnaði) af því fé - til dæmis 10-15%, 1-1,5 milljörðum - annars vilja hluthafar ekki fjárfesta í bankanum/fyrirtækinu heldur beina fé sínu í aðra ávöxtun. "Ofurgróðinn" er einfaldlega hlutfall af eigin fé bankans, því fé sem í honum er bundið, og er nauðsynlegur ef bankinn á að vera heilbrigður og gegna hlutverki sínu í hagkerfinu. Svo ég komi aftur á byrjunarreit, þá þýðir ekki í nútímasamfélagi að tala í upphrópunum og láta eins og einföldustu hagfræðilögmál gildi ekki. Þá eru menn í reynd að segja að þeir vilji fara yfir í Sovétkerfi með fullkomlega miðstýrðu hagkerfi án tengingar við framboð og eftirspurn. Ef það er tilfellið er betra að segja það hreint út.
Vilhjálmur

Þakka þér fyrir bréfið Vilhjálmur.
Nokkuð er til í ýmsu sem þú hér nefnir. Þessi nálgun þín á skattlagningu 18% plús 10% er að sjálfsögðu ekki ný af nálinn og heyrist oft haldið á loft. Því fer þó fjarri að greiðandi fyrirtækjaskatts og fjármagnstekjuskatts sé alltaf sami aðilinn, þótt þetta sé réttmæt ábending þegar skattlagning banka er annars vegar. 
Auðvitað er hægt að færa fram sannfærandi rök fyrir því að best sé að hafa skattlagningu sem allra lægsta. Það gagnast fyrirtækjunum vel ef málin eru skoðuð í þröngu samhengi og sama á við um erlend fyrirtæki, þau laðast að því landi sem býður upp á sem allra lægsta skattlagningu. En þegar kemur að hinu víðara samhengi vandast málið. Þá segir launamaðurinn, og þykir manni sem verst er haldinn hafa mest til síns máls, hvers vegna á ég nánast einn míns liðs að standa undir fjármögnun hins opinbera? Og þegar stórfyrirtækin flýja í skattaparadísirnar sem margir vilja gera Ísland að, þá gagnrýna þau fyrirtæki sem eftir sitja og aðrir skattgreiðendur, skattparadísarríkin fyrir að undirbjóða í sköttum og grafa þannig undan velferðarkerfi annarra ríkja.
Allt er þetta því spurning um jafnvægi. Í fyrsta lagi þarf að ríkja sæmileg sátt um skattbyrðina og síðan hitt hvernig henni er deilt niður á fyrirtæki og einstaklinga. Þar finnst mér "þotuliðið" hafa gerst of frekt til fjárins. Auðvitað eru þar innan um margir merkir frumkvöðlar, ekki vil ég gera lítið úr því. En að uppistöðu til erum við hins vegar að tala um samfélagslegt átak. Þannig fullyrði ég að ef ekki hefði komið til innspýting lífeyrissjóða, hefði ekki orðið sú úrás sem við höfum orðið vitni að á undanförnum árum. Margir virðast halda að þetta snúist fyrst og fremst um nokkra brilljant fjárfesta. Auðvitað skipta þeir máli en það má ekki gleyma því samfélagi sem þeir eru sprottnir upp úr og eiga velgengni sína að þakka.
Þú gefur kannski ekki mikið fyrir þessa tegund hagfræði Vilhjálmur en ég held að hún skipti meira en litlu máli. Mér finnst þessi vídd hins vegar stundum - og alltof oft - gleymast í umræðunni þessa dagana. Ég er hins vegar staðráinn í því að halda henni til haga.
Ögmundur