Treystum við Birni og Alcoa?
Sæll Ögmundur.
“Enginn getur með rökum dregið traust viðsemjenda okkar í efa.” Þetta sagði Björn Bjarnason, í umræðum í borgarstjórn þann 16. janúar sl. þegar til umræðu voru tryggingar Reykjavíkurborgar á lánum vegna Kárahnjúkavirkjunar.
Ofangreind ummæli vöktu athygli mína þar sem Björn talar óhikað fyrir mína hönd og reyndar allra annarra íbúa þessa heims og geri ég ráð fyrir að hann hafi þarna verið að vísa til Alcoa.
Hverju vill Björn treysta þegar Alcoa er annars vegar? Að þeir hafi fjárhagslegt bolmagn til að standa við sinn hlut? Kannski, en var ekki stórfellt tap á fyrirtækinu sl. ár skv. nýlegum fréttum? Að þeir verði góðir atvinnurekendur og tryggi starfsfólki sínu góð kjör og atvinnuöryggi? Fylgdi ekki þessum fréttum að þeir hefðu lokað a.m.k. einni álverksmiðju sinni í Bandaríkjunum og rekið fólkið, af því að þeir töldu hana ekki nægilega arðsama? Hvað með starfsmenn þeirra í Mexíkó? Þar hefur Alcoa staðið í baráttu gegn verkafólki sínu og rekið starfsmenn fyrir það eitt að vilja stofna sjálfstætt verkalýðsfélag og að hafa staðið í löglegum mótmælum þess vegna.
Sjá slóð: http://www.maquilasolidarity.org/campaigns/alcoa/index.htm
Skýrslu um sama mál er að finna á eftirfarandi slóð:
http://www.nlcnet.org/mexico/0702/
Eldri syndir eru ófáar og má sjá slíkt syndaregistur í grein sem birtist í dagblaðinu Colorado Daily þann 1. janúar 2001. (Colorado Daily.com) Samkvæmt greininni hafa 47 starfsstaðir og verksmiðjur Alcoa lent á lista alríkis- og fylkjayfirvalda sem hafa að gera með mengunarmál síðan 1987. Í mars árið 2000 var fallist á dómsátt milli Alcoa og U.S. Environmental Protection Agency, þar sem Alcoa þurfti að greiða 8,8 milljónir dollara eftir að fyrirtækið var kært fyrir að hafa veitt menguðu affallsvatni út í Ohio-ána á árunum 1994 til 1999. Í september 2000 var dótturfyrirtæki Alcoa, Discovery Aluminas Inc. í Port Allen gert að greiða ríflega milljón dollara í sekt vegna sams konar mengunarbrota.
Saga fyrirtækisins virðist samkvæmt greininni vera stráð ásökunum um vanvirðingu við náttúruna, mengunarbrotum og mannréttindabrotum. Dæmi er tilgreind um hvernig virkjanaframkvæmdir og námugröftur tengdur Alcoa hafa flæmt ættbálka af löndum sínum og kippt fótunum undan hefðbundinni tilvist þeirra í Surinam og Brasilíu. Einnig er greint frá árekstrum fyrirtækisins við frumbyggja Ástralíu.
Texasbúar hafa ekki heldur farið varhluta af umgengni Alcoa við náttúruna. Sjá slóð: http://www.texasobserver.org/showArticle.asp?ArticleID=290
Þannig að ef dæma á samkvæmt reynslunni virðist mega treysta því að Alcoa er ekki treystandi þegar kemur að umhverfismálum.
Eða eigum við kannski að treysta og trúa Birni Bjarnasyni blint?
Palli