TRÚARLEGT STEF?
Fjármálaráðherra sagði í viðtali við sjónvarpið á kjördag að hann hefði tekið að sér starf sem enginn annar vildi. Hann bætti um betur og sagði að hann væri ekki öfundsverður. Til þess að leggja áherslu á hversu kröfuhart starfið væri sagði hann frá því að hann hefði hitt erlenda sjónvarpsfréttamenn og manað þá til að leita að arftaka fyrir sig. Hann var þess fullviss að þrátt fyrir svo víðtæka leit myndi enginn finnast. Þetta samhengi er miklu biblíulegra en maður á að venjast þegar rætt er um afstöðu lýðræðislega kjörinna valdhafa til stöðu sinnar. Í gyðingdómi þykir það vera Móse til framdráttar að hann færðist undan í fyrstu þegar hann var valinn til að leiða þjóð sína. Hann var svo sannarlega ekki valinn vegna þess að hann hefði gaman af þessu. Að færa persónulegar fórnir í þágu æðri málstaðar er líka sterkt trúarlegt stef. Píslarvætti skapar dýrlinga en kjörnir valdhafar vísa sjaldnast í persónulegt harðræði til þess að styrkja tilkall sitt til valda. Trúlega gengur ráðherranum gott eitt til og vill undirstrika það með þessu orðalagi. Ég held þó að það gæti verið varasamt að ganga miklu lengra í þessum trúarlegu vísunum nema menn séu reiðubúnir að taka þá áhættu að flokksstarfið breytist í safnaðarstarf.
Árni V.