Fara í efni

TRYGGJUM BIRNI INGA ÖRUGGT SÆTI

Eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir hefi ég ekkert látið til mín taka hér í lesendahorninu á liðnum mánuðum. Er þar almennu heilsuleysi, nefnilega magaverkjum, hlustarverk í hægra eyra og eins liðverkjum í griplimum, um að kenna - og hefir allt þetta vesen hamlað mér frá skriftum og öðru verklegu stússi. En nú er að duga eða drepast fyrir minn gamla vin og fermingarbróður, Björn Inga Hrafnsson vinnumann á Arnarhóli, og fyrir hann rís ég upp úr bælinu og agitera hér og nú. Hvet ég nefnilega alla heiðvirðra íbúa hreppsins að ljá Birni atkvæði sitt í prófkosningu okkar framsóknarmanna sem haldin verður í Húsdýragarðinum og Skautahöllinni inni í Laugardal nú um helgina.
Björn Ingi Hrafnsson, vinnumaður Halldórs bónda á Arnarhóli, er traustur og framsýnn fulltrúi. Dýrmæt reynsla hans til sjávar og sveita og óbilandi dugnaður á eftir að koma okkur hreppsbúum öllum til góða, og jafnvel landsmönnum öllum er fram í sækir. Þessir kostir og margir aðrir, svo sem það að hann hefir jafnan verið réttsýnn málsvari okkar lágstéttarmannanna, gera það að verkum að ég og mitt heimafólk, 18 talsins þegar öllu er til skila haldið, styður Björn heilshugar til forystu á lista Framsóknar í kosningunum til sveitarstjórnar á vori komanda. Sem slíkur á hann allnokkra möguleika á að hreppa sæti í hreppsnefndinni – og ef mál mundu skipast á þann veginn gæti hann allt eins orðið okkar næsti hreppstjóri. Því má nú enginn, sem vettlingi getur valdið, skorast undan þátttöku í prófkosningunni. Gerum okkur glaðan dag, ríðum hópreið inn Laugardal og veitum Birni öruggt brautargengi!!
Þjóðólfur