Fara í efni

TVEIR MENN Í EINUM? NÝJUSTU FREGNIR AF AÐSTOÐARMANNI FORSÆTISRÁÐHERRA

Björn Ingi Hrafnsson, aðstoðarmaður forsætisráðherra, hefur sýnt það á heimasíðu sinni að hann er í hópi afkastamestu skítadreifara landsins í pólitíkinni þegar hann tekur sig til. Nýjasta framlag hans er að sletta yfir nýkjörinn formann Samfylkingarinnar, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur.

Það er þetta með klíkurnar og “drottninguna”

Og hvert er nú tilefni þess að Björn Ingi stígur á bensínið og úðar úr dreifaranum yfir Ingibjörgu Sólrúnu. Jú, það er greinilega þetta spursmál með valdaklíkurnar í samfélaginu eins og glöggt má sjá á eftirfarandi orðum hans:
“Þetta með klíkurnar, það að hlutverk Samfylkingarinnar og hennar sérstaklega sé að ráðast gegn klíkunum í íslenskum stjórnmálum, það var aldeilis bráðfyndið. Alveg er ég viss um að Ráðhúsklíkan hennar Ingibjargar Sólrúnar fann ekki upp þennan brandara, hann hefur orðið til hjá sjálfri drottningu Ráðhúsklíkunnar.”

Já, þetta með klíkurnar hefur snert viðkvæman blett á Birni Ingi og Ingibjörg Sólrún hlýtur að launum hvort tveggja í senn; aulafyndni og ómengaða karlrembu. Getur verið að Björn Ingi óttist eitthvað um eigin hag þegar minnst er á klíkur? Kannast hann eitthvað við umræddar klíkur og þrífast þær dáldið vel í Framsóknarflokknum? Er hann kannski meðlimur í einni slíkri? Því verður hann sjálfur að svara en í örstuttri grein upp á fjórar málsgreinar gerir hann sitt ýtrasta til að hæðast að nýkjörnum formanni Samfylkingarinnar. Þrívegis er Ingibjörg Sólrún uppnefnd drottning af þessu tilefni og er svo í háði sögð “meiri húmoristi en margir hafa talið”. 

Hvenær er maður fyndinn og hvenær hlægilegur?

Já, svona eru nú skrifin hans Björns Inga þegar hann reynir að glíma við pólitíska andstæðinga sína. Í þetta sinnið klifar hann á uppnefninu “drottning” og smjattar svo á óvæntum húmor og “bráðfyndnum brandara”. Eitt er þó vel upphugsað og skynsamlegt í pistli hans. Hann bendir nefnilega með réttu á að mikill munur sé á því að vera fyndinn og hlægilegur. Í framhaldinu þykist hann reyndar ekki átta sig á hvar staðsetja skuli formann Samfylkingarinnar í þeim efnum. Hvað um það, en alla vega þarf enginn að velkjast í vafa um hvorn flokkinn Björn Ingi fyllir. Með skrifum á borð við þau sem hér hafa verið rakin gerir hann engan annan en sjálfan sig hlægilegan – og það í besta falli. Einkum tvennt sýnist mér valda þessu dapurlega hlutskipti aðstoðarmannsins: Hann er svo innilega lókal í öllum málflutningi sínum, á hinn bóginn hirðir hann ekkert um að styðja mál sitt með neinum rökum. Með öðrum orðum er engu líkara en hann sé fyrst og fremst að skrifa á netið fyrir þröngan hóp einkavina; einhverja uppskrúfaða uppa-klíku í fílabeinsturni, klíku sem hefur allt öðrum og fínni hnöppum að hneppa en óbreyttur lýðurinn, talar líka allt annað tungumál, og kærir sig kollótta um málefnalega umræðu - telur sig eðlilega yfir slíkt hafna í yfirgengilegum valdhroka sínum.

Getur einn maður verið tveir saman í klíku?

Maður hlýtur að velta því fyrir sér hvort það sé æskileg blanda að í einum og sama manninum birtist okkur einn daginn æruverðugur aðstoðarmaður hæstvirts forsætisráðherra en hinn næsta sannkallaður hrokagikkur, já valdhrokinn uppmálaður, við skriftir á veraldarvefnum þegar pólitískir andstæðingar eiga í hlut. Þá hagar aðstoðarmaðurinn sér eins og óuppdreginn uppalingur í fámennum félagsskap – í réttnefndri klíku – og sést ekki fyrir í vitleysisgangi sínum. Um það hversu heppilegt þetta fyrirkomulag er og hvort að það getur yfirleitt gengið upp verður hver og einn að dæma.

Rannsóknar er þörf á sköpunarferlinu

Og þau eru fleiri dæmin í seinni tíð (frá fyrri tíð man ég bara eftir Jónasi frá Hriflu) að framsóknarmenn stundi málflutning af svipuðu tagi og "aðstoðarmaður" aðstoðarmannsins. Áþekk dæmi finnast m.a. á vefmálgögnunum timinn.is og hrifla.is en líka í þingflokknum og meira að segja í ráðherraliðinu. Að mínu viti er kominn tími til að einhver röggsamur stjórnmálafræðingur leiti orsakanna á þessari þróun og gefi haldbærar skýringar á sköpunarferli “hins nýja framsóknarforkólfs” en sú tegund fjölgar sér nú ört. Afleiðingarnar þarf stjórnmálafræðingurinn hins vegar ekki að rannsaka af mikilli dýpt því þær þekkja allir. Þær hafa birst almenningi í vaxandi virðingarleysi fyrir lýðræðinu, í valdhroka og yfirgangi.
Þjóðólfur