Tyggigúmmíkenningin endurmetin
Heill og sæll Ögmundur.
Ég neita því ekki að heldur þótti mér tyggigúmmíkenningin, sem þú varst einhvern tímann að gantast með hér á síðunni, vera á jaðri aulafyndninnar og reyndar alveg út í hött. Það þykir mér ekki lengur. Ef ég man rétt þá gekk kenningin út á það, að eðli Framsóknarflokksins – í stjórnarsamstarfi við Íhaldið - svipaði til vel tugginnar tyggigúmmíklessu sem spýtt væri niður í gangstétt en festist síðan undir skósóla vegfaranda. Þegar gengið hefði verið á slummunni um hríð væri illmögulegt að ná henni undan sólanum. Ég fæ ekki betur séð en Davíð Oddsson sé að leika sér að því að ögra Framsókn og niðurlægja hana á alla lund. Hún virðist hins vegar ætla að taka öllu – smá nöldur um prósentur en öll prinsipp látin lönd og leið. Ég er sannfærður um að Davíð Oddssyni er nákvæmlega sama hvort þess stjórn lifir eða deyr nú þegar stólaskiptin eru framundan. Meira að segja þykir mér margt benda til að hann vilji gjarnan sprengja þessa ríkisstjórn. En við Halldór Ásgrímsson, tilvonandi forsætisráðherra, losnar hann hins vegar ekki. Það virðist ekkert auðveldara að losna við Framsókn en tyggjóklessuna sem gengst upp í skósóla. Þegar búið er að ganga lengi á henni verður henni ekki þokað. Enda búið að ganga úr henni allan safa og hún orðin hluti af skósóla herra síns.
Kveðja,
Jóel