Tyggjóeðli Framsóknar
Mér finnst tyggigúmmíkenningin sem þú settir fram á síðunni þinni á miðvikudag (3/12) frábær. Ég held að þú hafir hitt naglann á höfuðið. Framsóknarflokkurinn mun hanga í samstarfi við Sjálfstæðisflokksinn svo lengi sem hann á þess kost. Hann er tilbúinn að þola allar píslir fyrir ráðherrastólana. Auðvitað átti Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra að segja af sér þegar hann gat ekki staðið við samninginn sem hann hafði gert við Öryrkjabandalag Íslands. Mótsögnin í afstöðu minni alla vega, er hins vegar sú að heldur vil ég Framsókn en Íhald. Jón hefur verið ágætur í heilbrigðisráðuneytinu eftir því sem ég fæ séð. En einhvern veginn gengur það ekki upp að lofa öllu fögru fyrir kosningar og "ná svo ekki fram" því sem maður hafði lofað að kosningum loknum. Þetta er ekki gott pólitískt vinnulag og ekki gott til þess að hugsa að svona brellur skili stjórnmálaflokkum inn í Stjórnarráðið.
Með kveðju,
Hafsteinn Orri