UM ÁBYRGÐ LÍFEYRISSJÓÐA, STEINGRÍM OG BANKANA
Sæll félagi og vinur.
Var að lesa síðuna þína og horfði meðal annars að Hannes Hólmstein og að mínu mati mætti alveg rífja upp fleiri umæli sem fólk lét falla þegar það hélt ekki vatni yfir því hvað þetta voru miklir snillingar að búa til peninga sem voru svo ekki til þegar upp var staðið. Ég afritaði textan hér að neðan af síðunni þinni og eins og þú sér undirstrikaði ég hluta af honum og er það vegna þess að mig langar til þess að spyrja þig einnar spurningar. Eru það ekki stjórnir sjóðanna sem taka ákvarðanir um fjárfestingar þeirra? Ef svo er eiga þær ekki að axla ábrygð og segja af sér?
("Vegferðinni lýsir Hannes Hólmsteinn hins vegar prýðilega. Fyrst var óveiddur fiskur gerður að verslunarvöru, að „eign" sem hægt var að veðsetja og braska með, síðan voru bankarnir teknir úr höndum almennings og fengnir í hendur ævintýramönnum og síðan var farið að setja lífeyrissparnað landsmanna inn í þessa hít. Þetta er hárrétt hjá Hannesi og víti til varnaðar eins og á reyndar við um málflutning hans að öðru leyti.")
Ég er enn þeirrar skoðunar að Steingrímur J hafi farið yfir strikið í Kryddsíldinni. Annarsvegar upplifði ég orð hans á þann veg að honum fynndist ekkert athugavert við það að mótælendur væru að eyðileggja eigur annara og hins vegar þegar hann stakk upp á því að bjóða einhverjum mótmælandanum stól Geirs við borðið. Ég var í fjölskylduboði á nýársdag og þar voru fleiri sem voru á sama máli og ég um að Steingrímur hafi farið yfir strikið.
Annað sem ég hef verið að velta fyrir mér en það er að öll lán sem ég skulda í Landsbankanum verð ég að borga til baka með fullri verðtryggingu (hverju réttlát sem hún er í dag) og vöxtum, en þessi sami banki má skerða séreingnalífeyrissparnaðinn minn um 30% án þess að ég geti nokkuð gert í því. Ef ég myndi gera slíkt hið sama um skuldir mínar við bankann myndi hann ganga að eign minni og jafnvel gera mig gjaldþrota. Þegar ég hóf þennan sparnað setti ég þau skilyrði að ég vildi ekki vera í áhættufjárfestingu og bað um að þetta yrði ávaxtað á öruggum reikningi og sagði ég að ég vildi frekar fá lægri vexti heldur en að vera í einhverum áhættufjarfestingum. Það vantar nefnilega í mig græðgisgenin.
Með kveðju,
Sigurbjörn Halldórsson
Heill og sæll. Ég get tekið undir með þér að stjórnir lífeyrissjóða þurfa að ígrunda sína ábyrgð. Samkvæmt fjárfestingarstefnu sjóðanna fjárfestu þeir hluta eigna sinna í "íslensku fjármála- og atvinnulífi" og það var einsog við þekkjum gegnum krosstengt og í sumum tilvikum spillt. Í stjórnum lífeyrissjóðanna voru menn þó ekki að skara eld að sinni eigin persónulegu köku og þykir mér það hljóta að vera atriði til skoðunar í þessu samhengi.
Kv.
Ögmundur