Fara í efni

UM BYSSUR, ESB, ICESAVE OG FLEIRA

Byssuvæðing lögreglunnar er eitt furðulegasta mál sem upp hefur komið á undanförnum árum. Það er hápunkturinn á þeirri aðferð núverandi ríkisstjórnar að taka ákvarðanir án þess að bera eitt eða neitt undir þjóðina. Ekki var þjóðin spurð hvort leggja ætti hugmyndir um nýja stjórnarskrá til hliðar. Ljóst er að við fáum ekki nýja stjórnarskrá meðan þessi ríkisstjórn situr sem fastast.
Þjóðin var ekki spurð hvort draga ætti aðildarumsókn að Evrópusambandinu til baka. Langflestir fræðimenn hafa eindregið lagt áherslu á að aðild með eðlilegum og skýrum skilyrðum er mjög góð leið að styrkja hagsmuni okkar um alla framtíð. Þjóðin var ekki spurð um hvort gefa ætti háar fjárhæðir eftir til útgerðarinnar. Skattar kvótagreifa voru stórlega lækkaðir til þess þeir geti vaðið sem áður í auði og ráðstafað fiskveiðikvótanum eftir eigin hagsmunum. Þjóðin var ekki spurð um hvort leggja ætti ný náttúruverndarlög til hliðar eins og einhliða var ákveðið. þjóðin var ekki spurð hvort eyða ætti 2 milljörðum af vegafé í þágu lóðabraskara í Garðabæ og þar með eyðileggja merkar náttúruminjar. Þjóðin var ekki spurð um hvort leggja ætti mannréttindi og rétt til hliðar þegar verið var að mótmæla framangreindumr framkvæmdum ásamt því hvort lögsækja skyldi hóp mótmælenda vegna síðasta liðar.
Þjóðin var heldur ekki spurð um nýtt Icesavesamkomulag sem ríkisstjórnin gerði við Breta og Hollendinga núna í vor og kom því þannig í kring að engin umræða varð! Með sérstakri aðferð var komið í veg fyrir að málið væri borið undir Alþingi og þar með þjóðina! Þetta nýja samkomulag byggist algjörlega á eldra samkomulagi sem Sigmundur Davíð hamaðist hvað mest hérna um árið og æsti forsetann á móti því. Allt gert í versta áróðursstríði í íslenskri pólitík. Þeir sem ekki trúa þessu ættu að hlusta á þáttinn Í vikulokin s.l. laugardag á Rúv, rás 1. Mér kom þetta virkilega á óvart en umræður í þættinum spunnust um þá staðreynd að samkomulag er um að Icesave skuldbindingarnar verða greiddar úr sjóðum Landsbankans. Þetta krefst rannsóknar og umræðu. Er þetta eðlileg sinnaskipti SDG? Var Icesavemálið aðeins áróðurstæki hans til að grafa undan ríkisstjórn Jónhönnu Sigurðardóttur? Og þjóðina má alls ekki spyrja hvort rétt sé að vígvæða lögregluna. Þessi vopn eru álíka varhgaverð og byssurnar sem vígamaðurinn Andreas Breivik notaði við að skjóta og deyða 77 mnns fyrir rúmum 3 árum. Þessi vopn eru jafnvel enn hættulegri. Er ekki fyrir löngu kominn tími að krafist verði opinberrar rannsóknar á gerðum þessarar ríkisstjórnar? Byrja má á því að spyrja þjóðina hvort rétt sé að vígvæða lögregluna?
Kv. úr Mosfellsbæ,
Guðjón Jensson

Sæll Guðjón og þakka þér fyrir þessa eldmessu. Um margt er ég þér sammála en ekki allt, svo sem útleggingar þínar á Icesave þar sem nú virðast vera að birtast á ný í sínum hráustu myndum gamalkunn afstaða margra þátttakenda í umræðunni frá 2009 og 2010. Sem betur fer var málið tekið úr sínum versta farvegi með tvítekinni þjóðaratkvæðagreiðslu.
Ég er heldur ekki sammála þér að flestir fræðimenn telji aðild að Evrópusambandinu "með eðlilegum og skýrum fyrirvörum" gerlegri fyrir okkur en aðrar þjóðir sem gerast aðilar að ESB. En um mikilvægi lýððræðis og gagnsæis erum við sammála. Ef við hefðum borið gæfu til að bera undir þjóðina hvort hún vildi að við sæktum um aðild að ESB áður en haldið var af stað hefði margt farið á annan og betri veg.
Kv.,
Ögmundur