Fara í efni

UM FAGURGALA FRJÁLSLYNDIS OG STÖÐUNA Í STJÓRNMÁLUM

Það var frétt í blöðunum um daginn um að Trump hafi haft nýtt sér til framdráttar sérsniðnar Facebook kannanir á stjórnmálaskoðunum. Valdir markhópar hafi fengið spurningar sem leiddu í ljós að þeir ættu samleið með Trump.
Ég sel þetta ekki dýrara en ég keypti en varð þó hugsað til fjöldaþátttöku hérlendis í stjórnmálaprófum þar sem menn staðsettu sig á ásum frjálslyndis frekar en stjórnlyndis og alþjóðahyggju frekar en einangrunar. Þar póstuðu menn með stolti að þeir væru frjálslyndir og víðsýnir - og í kjölfarið komu flokkarnir og sögðu að þeir væru einmitt þannig: Frjálslyndir og víðsýnir. Allavega þeir nýju sem þurftu ekki að dragnast með ábyrgð á því sem gert hefur verið til þessa.
En svo þegar kemur að viðræðum um stjórnmál - hvað eigi að gera fyrir hvaða pening - virðist það gagnast lítið að vera frjálslyndur og víðsýnn. Allir hafa einhverja pólitík sem markar stöðu þeirra. Þeir frjálslyndustu (held að Viðreisn standi þar feti framar en Björt Framtíð að eigin sögn) eru á móti skattahækkunum og vilja hygla ríkjandi valdakerfum sem aftur viðheldur tekjustofnum þeirra sem þegar hafa komið sér vel fyrir. Hefði ekki verið nær að fara í kosningar með þá yfirlýsingu en hvað þeir eru frjálslyndir, svona til að sýna sitt rétta andlit fyrir kosningar.
Fyrsta raunverulega agðerðatillaga Viðreisnar er svo lítið frjálslynd að mann óar við, en það fólst í að beita valdboði til að koma á launajafnrétti. Þó markmiðið sé gott sýna þeir að þeirra fyrsta val er að beita naglaspýtunni til að berja menn til hlýðni ef ekkert annað dugar. Reyndar hafa þeir ekki hug á að reyna nokkuð annað - sem er trúlega hinumegin á þessum fína frjálslyndis og stjórnlyndisás.
Björt Framtíð er svo frjálslynd að frá þeim hefur ekkert annað heyrst efnislega. Það veit enginn fyrir hvað þeir standa eða af hverju þeir vilja vera taglhnýtingar Viðreisnar. Svo tala menn um að ástæða þess að það sé erfitt að mynda stjórn er að þjóðarviljinn sé svo brotakenndur eins og niðurstaða kosningana sýni. Það þurfi jafnbrotakennda stjórn þvert yfir miðju og út til allra átta til að bregðast við óskum kjósenda. Frekar en að tilgreina þá augljósu niðurstöðu að fagurgali frjálslyndis - sem glumdi eins og tóm tunna um allt fyrir kosningar - gerði það að verkum að kjósendur gátu illa gert upp á milli valkosta á grundvelli stjórnmálaskoðana.
Fyrst eftir kosningar koma VG fram með skýrar hugmyndir í stjórnarmyndunarviðræðum um að auka tekjur ríkisins til að eiga fyrir velferð. Þeir töluðu sjálfsagt í þá átt fyrir kosningar, en alls ekki jafnskýrt. Jafnhræddir og aðrir að segja eitthvað umdeilanlegt. Sem þýðir að eftir kosningar steyta allir á skeri.
Nú koma fram ný andlit með ný stjórnmál segja þeir. Sama aðferðin notuð sem hefur virkað á almenning um áratugaskeið. Hægristefna er normalíseruð þannig að hófsamt, ópólitískt og gott fólk kjósi Íhaldið. Ný-íhaldið velur kennisetningu frjálslyndis til að fá sem flesta um borð og vinna augljóslega gegn samfélagssýn og stjórmálaum jafnaðarmanna.
Kjósandi í Kraganum

Ég þakka fyrir þessar athyglisverðu vangaveltur!
Kv.,
Ögmundur