Um fjármál flokkanna, forsetann, auðhringana og lýðræðið
Í grein hér á síðunni 6. maí s.l. skrifaði ég um vandræðagang Samfylkingarinnar með bókhaldsmál sín og spurði hvort botninn væri suður í Borgarfirði. Vísaði ég þar til hinnar umtöluðu ræðu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í Borgarnesi fyrir síðustu alþingiskosningar þar sem hún, sjálfur jafnaðarmannaforinginn, vann sér það helst til frægðar að taka upp á arma sína helstu auðjöfra landsins: Þá heiðursmennina Jón Ólafsson fyrrverandi Norðurljósaeiganda, Jón í Baugi og Sigga Kaupþingsriddara.
Samfylkingin með óþægilegt pukur
Hvorki erum við blóðskyldir, ef marka má Íslendingabók Kára Stefánssonar, ég og forsætisráðherra né heldur liggja á milli okkar leyndir fjárhagslegir þræðir. En eitt áhugamál a.m.k. eigum við sameiginlegt, nefnilega Borgarnesræðuna og peningamál Samfylkingarinnar. Þegar forsætisráðherra druslaðist loksins upp í ræðustól s.l. laugardag til að tjá sig um fjölmiðlafrumvarpið sagði hann m.a.: „Ég hef átt erfitt með að skilja hvers vegna Samfylkingin hefur algerlega farið í för og föt Norðurljósa í allri þessari umræðu. Þar skilur hvergi á milli, ekki bókstaf, öll rök sem þaðan koma eru ekki bara tekin gild, heldur étin upp hvert á fætur öðru af talsmönnum Samfylkingarinnar. Kannski koma einhverjar skýringar á þessu einn góðan veðurdag, rétt eins og á því hvers vegna Samfylkingin ákvað fyrir síðustu kosningar að gera þrjú fyrirtæki; Jón Ólafsson, Baug og Kaupþing sérstaklega að sínum fyrirtækjum.”
Eftir þessi orð ráðherrans svaraði Ingibjörg Sólrún enda málið henni skylt og þar að auki hefur hún verið harðasti andstæðingur frumvarpsins á þingi og manna mest talað um hinn helga og stjórnarskrárvarða eignarrétt og er þá Bleik brugðið þegar svokallaðir vinstrimenn halda ekki vatni í baráttunni fyrir heill og hamingju aughringanna. En nú brá svo við að jafnaðarmannaleiðtoginn linaðist í baráttunni og engu var líkara en Ingibjörg hefði fengið róandi sprautu frá hæstvirtum forsætisráðherra. Og eftir sprautuna sagði hún m.a.: „Hinn pólitíski ófriður hefur gengið of langt í þessu máli. Það urðu skil í málinu í sjónvarpsviðtalinu við forsætisráðherra og það var innsiglað í þeim dylgjum og þeim áróðri sem forsætisráðherra hefur hellt yfir okkur.”
Af hverju er óvissunni ekki eytt?
Hinn pólitíski ófriður hefur gengið of langt, sagði Ingibjörg Sólrún, hafandi þó verið búin að djöflast á frumvarpi ráðstjórnar Davíðs Oddssonar eins og minkur í hænsnabúi. Ekki meir, ekki meir! Þannig eru viðbrögð Ingibjargar Sólrúnar jafnan þegar hún vill ekki taka slaginn til enda og skýtur sér undan í skjól svokallaðra samræðustjórnmála en það ágæta hugtak mun hún hafa fundið upp í einræðisherratíð sinni á stóli borgarstjóra. Hún minnti á hvernig Davíð Oddson hafði vegið að embætti forseta Íslands í viðtali við Sjónvarpið. En hún gerði hins vegar ekki og ætlar sér greinilega ekki að gera neina tilraun til að skýra fjármál Samfylkingarinnar. En til þess að flokkurinn liggi ekki undir grun um vanhæfi í fjölmiðlamálinu, rétt eins og forsetinn hefur verið sakaður um, er nú spurt: Vilja aðstandendur Samfylkingarinnar ekki leggja bókhaldið á borðið, vilja þeir ekki taka af öll tvímæli um fjármál flokksins? Eða er bókhaldsbotninn, eins og ég og forsætisráðherra höfum ýjað að, eftir allt saman suður í Borgarfirði?
Hverjir eiga Ísland, flokkana og forsetann?
En peningapukrið snýr ekki aðeins að Samfylkingunni. Málið er bara að hún liggur svo skemmtilega vel við höggi. Leyndin sem hvílir yfir fjármálum stjórnmálaflokkanna almennt er óþolandi. Hún er ljótur blettur á lýðræðinu og grefur undan trú á því. Og ekki má lýðræðið við miklu þessa dagana þegar framkvæmdavaldið hefur með augljósari hætti en nokkru sinni afhjúpað valdníðslutilhneigingar sínar sem hafa að sönnu ágerst mjög hin síðari ár. Afhjúpað sjúklega valdníðslu gagnvart þjóðþinginu með fulltingi forritaðra þingvélmenna sinna þar, niðurlægt Alþingi og grafið undan tiltrú á því, níðst á stjórnarandstöðunni með bellibrögðum. Afhjúpað sjúklega valdníðslu sína gagnvart öllu kviku sem leyfir sér að andæfa gegn hæstvirtri ráðstjórn. Og síðast réðst forsætisráðherra af mikilli heift á embætti forseta Íslands. Öll var sú árás auðvitað brennimerkt óvenjulega litríkum skapgerðareiginleikum ráðherrans. En árásina gerði hann í krafti þess að í ranni núverandi forseta hvílir enn ein æpandi þögnin um fjármál svokallaðra kjörinna fulltrúa þjóðarinnar.
Forðum riðu þeir um héruð félagarnir Ólafur Ragnar Grímsson og Jón Baldvin Hannibalsson og spurðu bláeygir og auðvitað með dálitlum derringi: Hverjir eiga Ísland? Engin afdráttarlaus niðurstaða lá fyrir eftir könnunarleiðangur þeirra en það er auðveldara að svara þessari spurningu nú. Það liggur í augum uppi að fáeinir auðhringar eru á góðri leið með að gleypa samfélagið allt eftir að frjálshyggjutrúboðinu hefur verið hrundið í framkvæmd af ríkisstjórnum Davíðs Oddssonar allt frá 1991 að telja. En í framhaldinu er rétt að því verði einnig svarað og það sem allra fyrst: Hverjir eiga Sjálfstæðisflokkinn, Samfylkinguna og Framsóknarflokkinn? Og hverjir eiga R-listann sem nú er kominn í för og föt Norðurljósa, rétt eins og móðurskipið Samfylkingin? Eru það almennir kjósendur, flokksmenn eða kannski fáein fyrirtæki? Hverra erinda ganga þessir flokkar? Og hvað með sjálfan forseta lýðveldisins, hins rísandi bananalýðveldis sem dafnar og þrífst þar sem ægivald auðhringanna er mest, eins og hæstvirtur forsætisráðherra og helsti höfundur banana-væðingarinnar undirstrikaði réttilega á Alþingi s.l. laugardag.
Þjóðólfur