UM "KAPITAL-SÓSÍAL-FASISMA"
Vegna greinarinnar: FJÁRMAGN GEGN FÓLKI: Fyrst af öllu þá vil ég þakka þér Ögmundur fyrir að standa í fæturna fyrir þínum skoðunum. Sömuleiðis vildi ég senda inn athugasemd um atriði sem þú líklega veist nú þegar af. Orðið af götunni var það á sínum tíma að Geir H Haarde hafi notfært sér tengsl sín í Noregi til að fá þeirra aðstoð til að fjármagna enduruppbyggingu íslenska fjármálakerfisins. Norðmenn tóku víst vel í þá beiðni hans og allt virtist ætla að ganga upp þar til að skyndilega var klippt á viðræðurnar. Svíar komust að þessum viðræðum og þögguðu niður í Norðmönnunum. Af hverju? Sagan segir náttúrulega að sænsku bankarnir eigi mikinn pening undir í austantjaldslöndunum Eistlandi, Lettlandi og Litháen og að ef/þegar allt fer á versta veg þar þá er hægt að taka Ísland sem fordæmi fyrir öll möguleg framtíðar kerfishrun. Þar sem alþýða ríkjana þar sem einkafyrirtækin eru skráð þarf að borga allann þann skaða sem fjármagnseigendur verða fyrir. Þetta er auðvitað viðkvæmt mál þar sem um sparifé manna er að ræða, en við megum aldrei gleyma því að bankar eru fyrirtæki líkt og hvert annað fyrirtæki. Segjum að ég borgi fyrir húsgögn hjá verslun sem verður síðan gjaldþrota áður en varan er afgreidd. Þá hlýt eg að eiga kröfu í þrotabú fyrirtækisins en ekki það þjóðríki sem fyrirtækið er skráð í. Þetta er sá boðskapur sem mér finnst vanta til íslenskrar alþýðu, að hún þurfi ekki að skammast sín vegna einhverra óprúttinna manna úti í bæ. Hægri mönnum blöskrar þessi meðferð á almennum skattgreiðendum. Þessi samblöndun á ríkis- og einkarekstri í einhverskonar Kapítal-Sósíal-Fasisma er lítið annað en "Guðlast" við allar þær kenningar sem hægri menn hafa talið sig standa fyrir .
Kveðjur,
Óskar