Um Lítilmagnann Baug og fjarveru ráðherra
Ég hef fylgst með umræðunni á Alþingi um fjölmiðlafrumvarpið. Ég er ekki viss um að ég sé alveg sammála ykkur í VG. Mér finnst sjálfsagt að brjóta niður þessar einokunarófreskjur á markaði. Mér finnst nánast hlægilegt að tala um Baug eins og einhvern lítilmagna, sem þurfi að meðhöndla sem slíkan. Það sem ég hins vegar ekki skil er að ráðherrarnir skuli ekki vera viðstaddir umræðuna eins og þið óskið eftir. Er þetta hræðsla við umræðuna eða einfaldlega almennur vesaldómur?
Valdimar
Sæll Valdimar.
Ég held að því valdi bæði almennur vesaldómur og hræðsla við málefnið að ráðherrar mæta ekki til umræðunnar í þingsal þótt ítrekað sé eftir því kallað. Ég er sammála þér að enginn þarf að vorkenna Baugi sem hefur sölsað undir sig óhófleg völd og auð. Við getum hins vegar ekki látið það viðgangast að þröngvað sé í gegnum þingið frumvarpi sem gæti haft þveröfug áhrif en því er ætlað, dregið úr fjölbreytni í fjölmiðlun í stað þess að auka hana. Þá höfum við skyldur gagnvart fjölmennum vinnustöðum. Á þessu eru margar hliðar sem gaumgæfa verður rækilega áður en ráðist er í að breyta lögum.
Kveðja,
Ögmundur