UM MIKILVÆGI IÐNMENNTUNAR
Sæll Ögmundur.
Í tilefni allskyns áforma um hátæknifyrirtæki s.s.netþjónabú og önnur í þeim anda, væri ekki tímabært að ráðamenn menntamála og þingmenn hugleiddu eitthvað um iðnmenntun á Íslandi. Það er á hátíðlegum stundum rætt um eflingu byggða og nauðsynlegt sé að opna háskóla í hverju plássi en enginn nefnir að það þurfi kannski líka fólk með annarskonar menntun til að framkvæma hugmyndir og smíða uppfinningar háskólamannanna. Mér er sagt að í næsta útskriftarárgangi Iðnskólans í Reykjavík séu fjórir rafeindavirkjar. Hverjir eiga að tengja búnaðinn og halda honum við í netþjónabúunum?? Við munum með stolti geta bent afkomendum okkar á Kárahnjúkastífluna, byggða með útlendum þrælum. Horfum við á hátæknifyrirtækin í framtíðinni með mannheldum girðingum og vörðum sem gæta þess að þrælarnir sleppi ekki út.? Þarf ekki að huga að iðnmenntun líka? Við lifum ekki á viðskiftafræðinni einni saman.
kv.
Þór Ólafsson
Rafeindavirki
Heill og sæll og þakka þér bréfið. Um það vil ég segja að ég er þér hjartanlega sammála.
Með kveðju,
Ögmundur