UM RÁÐHERRABÍLA OG RÁÐHERRA-KOSTNAÐ
Sæll Ögmundur.
Mér leikur forvitni á að vita, hvort þú notar ráðherrabíl á kostnað almennings, og ef svo er, er hann einn af þeim gljáfögru svörtu þýsku eðalbifreiðum sem oft sjást fyrir utan ráðuneyti landsins og alþingi? Að auki langar mig að vita, hefur beinn kostnaður vegna erinda og starfa heilbrigðisráðherra minnkað eftir að þú tókst við heilbrigðisráðuneytinu?
Björgvin Sigurðarson
Þakka þér bréfið Björgvin. Ég nota ráðherrabíl Heilbrigðisráðuneytisins í erindagjörðum sem ég fer á vegum ráðuneytisins og er af þessu mikið hagræði. Þetta er hins vegar óhagstæðari kostur fyrir mig sjálfan fjárhagslega borið saman við fastan bílastyrk alþingismanna sem ég fæ ekki fyrir bragðið. Bílar ráðuneytanna koma að góðum notum og hef ég ekki í hyggju að leggja bifreið Heilbrigðisráðuneytisins, sem er svört og yfirleitt gljáfægð en sænsk en ekki þýsk. Kostnaður Heilbrigðisráðuneytisins vegna starfa ráðherra við komu mína í ráðuneytið hefur minnkað verulega þar sem ég tek ekki ráðherralaun og hafa kjör mín rýrnað frá því ég var þingmaður. Þau eru þó býsna góð borið saman við þorra launafólks, 520 þúsund krónur á mánuði.
Með kveðju,
Ögmundur Jónasson