Fara í efni

UM SEÐLABUNKANN Á BESSASTÖÐUM

Myndskreyting hér á  síðunni hefur verið nokkuð til umræðu að undanförnu og hafa menn haft af því áhyggjur að viðkvæmt sálarlíf heilbrigðisráherrans kunni að hafa skaddast varanlega á því að fá höfuð sitt sett inn á mynd, beint ofan á búkinn á  Frakklandsforseta að heilsa Gaddafi  suður í Trípoli. Auðvitað eru svona falsanir ósvífnar því ég er sannfærð um að flestir sem sáu myndina hafi haldið að Guðlaugur Þór væri í sérstöku vinfengi við forseta Líbíu. Skiptir þá engu þótt þú hafir sagt Ögmundur, að þeir ættu ekkert sameiginlegt annað en að þurfa ekki að færa djúp rök fyrir máli sínu!
En hvað um það, tilefni þessa bréfs er seðlabunkinn á Bessastöðum. Þú segir í pistli hér á síðunni að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafi unnið góðan varnarsigur með því að fá frestun á breytingu á eftirlaunalögunum. Á einu ári hafi frestunin fært þeim, prívat og persónulega, kjarabætur á mánuði sem eru meiri í krónum talið en launafólk samdi um fyrr á árinu. Með því að sýna peningastaflann á gólfinu á Bessastöðum fyrir ofan pistilinn, ert þú að láta í veðri vaka að ráðherrarnir hafi verið að telja saman gróðann á ríkisstjórnarfundi í viðurvist forseta lýðveldisins. Er ekki rétt fyrir Morgunblaðið að taka þetta upp og spyrja Geir og Ingibjörgu Sólrúnu hvort þau séu ekki sár og reið? Hvort Geir þurfi ekki að taka þetta upp í næstu Valhallarræðu eða Ingibjörg Sólrún næst þegar hún kemur til landsins. Ég vona að þetta ríði ekki hinum viðkvæmari í ráðherrahópnum að fullu.
Sunna Sara