Fara í efni

UM SKATTA-SNIÐGÖNGUMENN OG SAMNINGS-STÖÐU SKULDARA

Sæll félagi.
Ég hef tekið eftir hugmyndum ykkar í efnahagsmálum sem miða ma. að því eð styrkja stöðu Seðlabankans og draga fé út úr hagkerfinu með útgáfu skattfrjálsra skuldabréfa. Ég verð reyndar að játa að ég varð frekar undrandi, hafði helst gert mér vonir um að þið segðuð það sem Þórólfur Matthíasson sagði á dögunum. Ríkið þarf að innheimta hærri skatta. Þessu hef ég reyndar haldið fram árum saman svo það kemur varla á óvart að ég hafi orðið ánægður með yfirlýsingar Þórólfs. Það verður að skattleggja hærri tekjurnar sérstaklega og ná til skattasniðgöngupeninganna
En þetta er ekki erindið. Ég ætla að minna á nokkuð sem þarf örugglega heilmikils undirbúnings við.
Haustið 2009 munu bankarnir væntanlega segja upp húsnæðislánunum sem þeir hófu að veita haustið 2004 með 4.15% vöxtum. Verði ekkert að gert er líklegt að mjög margar fjölskyldur lendi í miklum vanda, því horfurnar á lækkun vaxta almennt eru ekki vænlegar.
Ég tel aðeins tvo aðila færa um að hlaupa undir bagga. Íbúðalánasjóð og lífeyrissjóðina. Væntanlega þarf að breyta reglum Íbúðalánasjóðs, hann hefur hingað til ekki lánað til endurfjörmögnunar en hefur burði til að halda vöxtum af íbúðalánum niðri. Um þetta þarf að nást samstaða tímanlega.
Lífeyrissjóðirnir geta líka þurft að breyta sínum lánareglum. Ef ég man rétt er veðsetningarhlutfall þeirra 65% af söluverðmæti (þannig er það að minnsta kosti í mínum sjóði) þó aldrei hærra en 100% af brunabótamati. Vissulega þurfa þeir að gæta að ávöxtun sinni, en þú hittir naglann rækilega á höfuðið um daginn þegar þú sagðir að bankarnir ættu nú að snúa sér að innrás í stað útrásar. Hættan sem blasir við að ári er sú að þeir geri einmitt innrás, ekki í þinni merkingu, heldur innrás í fjárhag heimilanna, því þeir segja lánunum örugglega upp. Lántakendur þurfa að eiga möguleika á að greiða lán bankanna alveg upp, eða amk. að stórum hluta. Með öðrum orðum: skuldarar verða að hafa raunverulega samningsstöðu.
Bestu kveðjur.
hágé.