UM SPILLINGU OG ÁBYRGÐ ALÞINGIS
Sæll Ögmundur.
Til hamingju með nýju heimasíðuna. Hún er stórfín. Í pistli á heimasíðunni 5. febrúar segir þú um Samfylkinguna: "Pínulítil sál sem leyfir spillingunni að hafa sinn gang með þögn sinni." Ég er sammála þér. Annað geigvænlegt spillingarmál er skipan héraðsdómara fyrir norðan og austan. Að mínu viti hefði mátt heyrast meira frá VG um það mál. Ég er nefnilega sammála þeim orðum sem Sigurður Líndal hafði um framgöngu setts dómsmálaráðherra, Árna Matthiesen: "Hér skín í taumlausa vildarhyggju þar sem einungis er áskilið að lög séu sett með formlega réttum hætti og þeim beri að framfylgja með valdi hvert svo sem efni þeirra er. Valdboðið er sett í öndvegi; annað látið víkja. Með þetta að leiðarljósi er alræði og geðþótta opnuð leið og eru nærtækust dæmin frá Þýzkalandi eftir 1930." Þessi var líka skoðun framkvæmdastjóra BHM á sínum tíma: "Skylt að ráða þann hæfasta Í þessu sambandi má nefna að stundum gleymist í umræðunni hérlendis að það er óumdeild lagaregla að skylt er að ráða þann hæfasta; ekki er nægilegt eins og stundum virðist talið að ráða einn af mörgum hæfum. Ef slíkt er leitt í ljós er ákvörðun um ráðningu í starf ólögmæt." http://www2.bhm.is/main/view.jsp?branch=618844 Þetta, og eftirfarandi greinar hafa síðan sannfært mig um að skipan Þorsteins Davíðssonar sé ólögmæt. Hvað heldur þú? Þyrfti ekki að láta á það reyna fyrir dómstólum? http://www.visir.is/article/20080115/SKODANIR03/101150117 http://visir.is/article/20080125/SKODANIR/101250146/-1/SKODANIR http://www.visir.is/article/20080116/SKODANIR03/101160040 Kveðja,
Hjörtur Hjartarson
P. S. Er einhverjar fréttir að hafa af yfirvofandi afnámi eftirlaunaforréttindanna sem lögfest voru í desember 2003? Þar er á ferð spillingarmál sem allir flokkar á Alþingi bera nokkra ábyrgð á og ættu að hafa hátt um.
Heill og sæll. Hjörtur og þakka þér bréfið. Ég man ekki betur en einhver ætlaði að láta reyna á dómsmál varðandi umrædda skipan. Varðandi eftirlaunafrumvarpið er ég þér sammála að þar er á ferðinni spillingarmál sem verður að taka á. ´
Kv.,
Ögmundur