UM VERKFALL
Sæll Ögmundur. Þetta var gott framtak að stöðva græðgina við Geysi, að sjálfsögðu á íslenska þjóðin að eiga lokaorðið í gjaldheimtunni. Annan vinkill á þessari græðgi má finna í verkfallinu á flugvellinum. Er forsvaranlegt að fámennur hópur hálaunamanna geti tekið heila atvinnugrein í gíslingu? Það eru miklir þjóðarhagsmunir á ferðinni og vildi ég vita hver skoðun þín er, hvort að þjóðarhagsmunir vegi meir hér en hagsmunir fárra vel stæðra.
Gunnar
Sæll Gunnar, þú spyrð erfiðrar en jafnframt mikilvægrar spurningar. Almennt er ég maður verkfallsréttarins; að þú eigir rétt á því að hætta að inna af hendi vinnu þína ef kjörin eru ekki réttlát. Verkfallsréttinum verður að mínu mati að beita í samræmi við þessa hugsun, það er kjarabaráttu á réttlátum forsendum.
Jafnvel þegar verkfallsrétti hefur verið beitt á vafasömum forsendum hef ég þó ekki stutt lög á verkföll - og geri heldur ekki nú - af ótta við fordæmið sem slíkt myndi skapa gagnvart launafólki almennt, sem á það vopn eitt þegar það er beitt misrétti að leggja niður vinnu sína.
Kv.,
Ögmundur