UM VINNUKONUR OG VINNUMENN
Margrét Pála Ólafsdóttir, höfundur Hjallastefnunnar, er kröftug manneskja sem áorkað hefur ýmsu um dagana. Hún er frumkvöðull sem ekki hefur alltaf farið troðnar slóðir. Mér finnst hún eiga lof skilið fyrir sitt framlag til samfélagsmála þótt ekki sé þar með sagt að ég sé henni alltaf sammála.
Reyndar fór því fjarri í Silfri Egils í gær. Þar fór Margrét Pála mikinn og talaði ákaft fyrir einkavæðingu velferðarþjónustunnar. Þá myndi allt gerast í senn: Hægt væri að virkja sköpunarkraftinn í starfsfólkinu, kjörin myndu batna, sérstaklega kvenna sem þar með hættu að vera vinnukonur karla. Það eru þær nefnilega segir Margrét Pála, þær eru vinnukonur karlanna. Þær fóru út af heimilunum, segir hún, til að þjóna körlum áfram sem vinnukonur í skólum og á sjúkrastofnunum.
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, samferðarkona mín í VG, sem þátt tók í umræðunum, benti á að málið væri flóknara en þetta og varaði við einkavæðingar patentlausnum af þessu tagi. Sama verður ekki sagt um Kristrúnu Heimisdóttur. Svo var að skilja að þarna væri stefnu Samfylkingarinnar vel lýst. Eitthvað annað en afturhaldsrausið í mönnum á borð við Ögmund Jónasson í VG sem litu á allan einkarekstur sem væri hann frá í Neðra.
Hvað mig varðar þá er þetta náttúrlega alrangt. Ég er fylgjandi kröftugum einkarekstri og vil að einkafyrirtæki eigi góða daga og geti sinnt sinni framleiðslu eða þjónustu og starfsfólki sem allra best. Ég er hins vegar andvígur því að einkavæða heilbrigðis- og skólakerfið sem slíkt vegna þess að reynslan sýnir að það er verra fyrir notandann, starfsfólkið og skattgreiðandann. Þetta sýnir reynslan. Á þessu eru hins vegar undantekningar og hef ég aldrei verið andvígur því að tilraunir væru gerðar með einstaka þætti. Ekki hef ég heldur andæft sambýli opinberra sjúkrahúsa og sjálfstætt starfandi sérfræðinga, né sjúkrastofnunum sem eru reknar sem sjálfseignarstofnanir svo sem DAS og SÍBS. Það sem hinn pólitíski slagur snýst um er hins vegar hvort gera eigi velferðarþjónustuna að atvinnuvegi sem fjárfestar nýti sér til að græða á. Því er ég andvígur.
Í öðru lagi þykir mér eitt veigamikið atriði gleymast í þessari umræðu. Það gengur ekki að stilla upp sem andstæðum annars vegar opinberum stofnunum þar sem þorri starfsfólks ráði engu og hins vegar verktökum þar sem allir séu frjálsir sem fuglinn fljúgandi. Hvað með alla byggingaverkamennina sem eru í starfi hjá hinum margrómuðu verktökum? Hvað með þá sem malbika vegina, eru hásetar á bátum og skipum, leggja túnþökurnar við vegakantana og setja niður gangstéttarhellurnar? Eru þeir allir þáttakendur í atvinnulýðræði frá morgni til kvölds? Hvað með Kínverjana 900 sem til skamms tíma voru vinnumenn Impregíló fyrir austan að þjóna Alcoa, Valgerði og Geir? Og skyldu engar vinnukonur og vinnumenn vera í starfi hjá verktakanum Margréti Pálu?
Þetta flaug mér í hug þegar ég horfði á hluta Silfurs Egils í dag.