UNDARLEG HUGSSJÓN UM HÚSBÆNDUR OG HJÚ
Ég var að lesa pistil þinn með fyrirsögninni “ÞINGMENN SJÁLFSTÆÐISFLOKKSINS Í HUGSJÓNAHAM” og ég er fullkomlega sammála viðhorfi þínu. Einnig var grein Þjóðólfs góð um berrassaða keisarann!
Það fer ekki á milli mála að það verður að vera hægt að segja fólki upp sem ekki sinnir starfi sínu sem skyldi, eða þegar ekki er lengur þörf á því. Ég hef t.d. persónulega verið á móti æviráðningum, í hvaða starf sem er.
Ég tel þó frumskilyrði í siðuðu þjóðfélagi, að löglegar og siðvænlegar aðferðir séu notaðar við hverskonar samskipti við starfsfólk, í hvaða starfi sem er. Þá ekki síst ef þörf þykir að segja því upp!
Sá er þetta ritar, hefur löngum gegnt hlutverki forstöðumans, en ég hef alltaf haldið að það væri sjálfsagt og eðlilegt að fólki væri gefnar þrjár skriflegar áminningar, áður en því er endanlega sagt upp störfum. Það eru þó undantekningar ef um alvarleg brot er að ræða, eða, ef von er að fólk geti séð að sér, jafnvel eftir þriðju skriflegu áminninguna. Sem sagt, það er nauðsynlegt að hafa viðunandi sveigjanleika í öllum samskiptum við fólk, því í flestum tilfellum er brottrekstur úr starfi mjög alvarlegt áfall fyrir fólk og jafnvel aðstandendur þess. Ég hef ætíð persónulega reynt að afhenda áminningu, með starfsstjóra og jafnvel fulltrúa viðkomandi verkalýðsfélags viðstöddum. Ég hef aðalega starfað í einkageiranum, en þó einnig fyrir hið opinbera.
Ég er algjörlega ósammála “áttræðingunum” sem þú nefnir, og ég get ekki ímyndað mér “hverra kænu þeir róa”! Ég skil ekki hvað þeir telja kostinn með þingskjali sínu númer 1056, og óréttlætinu og áhyggjunum sem þeir vilja í garð starfsfólks. Maður skilur jafnvel ekki hvaðan svona fólk kemur, sem er búið að bora sér í þægileg störf með pólitískum flokksklíkuskap, en vill svo níðast á öðrum. Það er eins og þetta fólk hafi ekki verið alið upp á Íslandi! Skilur þetta fólk ekki að það sjálft er í raun opinberir starfsmenn, sem ætti þá fyrst og fremst að liggja undir fyrirvaralausum uppsögnum kjósenda, ef það heldur áfram afglöpum sínum.
Svo er spurningin hvort forstjórar, verkstjórar eða aðrir stjórnendur sem eru starfsmenn eins og aðrir, starfi þá undir sömu kvöðum um fyrirvaralausa uppsögn ef þeir ekki taka þátt í haðrstjórninni? Verða menn, með öðrum orðum, reknir fyrirvaralaust, fyrir að reka ekki aðra fyrirvaralaust? Eitt leiðir af öðru. Niðurstaðan færir okkur aftur í aldir - inn í heim húsbænda og hjúa. Ekki er æskilegt að halda inn í slíkan heim.
Ögmundur, helst get ég ímyndað mér að þetta fólk viti ekki betur, og viti ekki hvað það eigi að gera við tímann! Heilbrigðast væri að það fengi sér störf, til dæmis á sjónum eða í frystihúsi, þar sem það gæti haft hugann við þörf störf og skilað einhverju til samfélagsins.
Úlfljótur